Við byrjum þátt þessa föstudags á örskýringu í boði Atla Fannars Bjarkasonar. Í örskýringum sínum leitast Atli Fannar við að útskýra flókin og oftar en ekki furðuleg fyrirbæri á sem einfaldastan hátt - og í dag er viðfangsefnið kannski í óvenjulegri kanntinum. Aðfaranótt mánudags mætast Cincinnati Bengals og Los Angeles Rams í úrslitaleik NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta, eða Ofurskálinni eins og leikurinn er kallaður. Ofurskálin er ekki bara íþróttaviðburður, heldur risavaxið hagkerfi þar sem tugir milljóna horfa á dýrustu auglýsingar heims í dýrasta auglýsingaglugga heims og háma í sig amerískt snarl; tortilla-flögur, ídýfu, sælgæti og það allra mikilvægasta: Kjúklingavængi með nóg af gráðaostasósu. En bíðum aðeins hæg - ætlum við að örskýra kjúklingavængi? Svarið er: já. Íslendingar munu háma í sig þúsundir kjúklingavængja á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags og við verðum bara að vita af hverju. Hvernig hófst þetta allt saman - og af hverju djúpsteikjum við kjúklingavængi, hjúpum þá með sterkri sósu og dýfum þeim svo í gráðaostasósu? Vetrarólympíuleikarnir í Peking eru nú fullum gangi en vika er síðan leikarnir voru settir. Íslensku keppendurnir hafa sumir hverjir stigið á stokk, aðrir eru í einangrun vegna covid-19 en fá vonandi að spreyta sig í næstu viku. Í síðari hluta þáttarins lítur Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður, og helsti sérfræðingur RÚV um vetraríþróttir, við og ræðir við okkur um frammistöðu íslensku keppendanna hingað til á mótinu og hvað hefur vakið mesta eftirtekt á leikunum það sem af er. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.