Heimskviður

Heimskviður

Í Heimskviðum í dag er fjallað um kjörsókn í Bandaríkjunum nú þegar forsetakosningar eru handan við hornið. Við segjum frá mótmælaöldu í Kirgistan eftir þingkosningar þar í landi. Þá veltum við upp þeirri spurningu hvort bókmenntaverðlaun Nóbels séu í raun ónýt, eftir að illa hefur gengið að gera upp fortíðina eftir MeToo bylgjuna. Nóbelsverðlaun í bókmenntum hafa staðið á krossgötum frá árinu 2017 eftir hneykslismál og spillingu. Félagi í sænsku akademíunni var sakaður um gróf kynferðisbrot í kjölfar metoo-byltingarinnar og einnig gert að hafa brotið ýmsar aðrar reglur akademíunnar. Upp frá þessu hefur verið pressa á því að reyna að lægja öldurnar og endurheimta traust. Það gekk ekki árið 2019 eftir að tveir höfundar voru valdir, annar með mjög umdeildar pólitískar skoðanir og söguskoðun. Í ár hafa jafnvel sumir kallað eftir því að Louise Glück, handhafi nóbelsverðlaunanna 2020, taki ekki við verðlaununum í desember. Það er sem sagt enn allt í hnút í akademíunni og það veltur á næstu skrefum hvort hann verði leystur. Eru bókmenntaverðlaun Nóbels ónýt? Jóhannes Ólafsson leitast við að svara þeirri spurningu. Úrslit þingkosninganna í Kirgistan sem fóru fram 4. október voru ógilt tveimur dögum síðar. Kosningarnar leiddu af sér mikla mótmælaöldu sem steypti af stóli ríkisstjórn og forseta. Þessir atburðir áttu sér nokkurn aðdraganda og reyndar var þetta alls ekki í fyrsta sinn sem mótmæli almennings leiddu til stjórnarskipta í þessu fyrrum Sovétlýðveldi. Hallgrímur Indriðason rýnir í ástæður þessara atburða, þar sem meðal annars kemur við sögu embættismaður sem stundaði ólöglega fjármagnsflutninga, skoðar hvað taki nú við hjá þessari þjóð. Þá ræðum við við Elizabeth Rosen, sem starfar fyrir samtökin Next Gen America í Bandaríkjunum. Meðal annars um þá staðreynd að yfir 40 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar kosið í kosningunum og hvaða áhrif það hefur á fylgi frambjóðenda. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

51 | Krísan í Kirgistan og hneykslismál sænsku NóbelsakademíunnarHlustað

23. okt 2020