Heimskviður

Heimskviður

Hver hefur raunverulega völdin í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum? Þó að Joe Biden sé forseti hefur einn af flokksbræðrum hans í öldungadeildinni, Joe Manchin, verið ötull við að nýta sér þann nauma meirihluta sem Demókratar hafa þar til að knýja fram ýmsar breytingar á málum sem forsetinn hefur lagt fyrir þingið - og jafnvel stoppa þau. Eitt af þeim eru miklar umbætur í loftslagsmálum sem núna virðast stranda á Manchin og gefið hefur verið í skyna að skýringanna sé að leita í hagsmunum hans sjálfs. Hallgrímur Indriðason fjallar um málið. Ein besta knattspyrnukona Frakklands varð fyrir fólskulegri líkamsárás á dögunum. Fljótlega beindist grunur að liðsfélaga hennar bæði í landsliði og félagsliði, og gerðu fjölmargir evrópskir fjölmiðlar að því skóna að afbryðissemi og óhófleg metnaðargirnd væru ástæður árásarinnar og báru málið saman við það þegar fyrrum eiginmaður listskautadansarans Tonyu Harding slasaði keppinaut hennar, Nancy Kerrrigan um miðbik tíunda áratugs síðustu aldar, með þeim afleiðingum að Harrigan varð að draga sig úr keppni á bandaríska meistaramótinu. En þetta forvitnilega mál er víst ekki alveg svo einfalt, eins og Guðmundur Björn Þorbjörnsson komst að. Sjálfsportrett eftir mexíkósku listakonuna Fridu Kahlo seldist fyrir metfré á uppboði í Bandaríkjunum á dögunum. Kahlo var einn þekktasti málari síðastliðinnar aldar, en önnur eldri málverk eftir konur seljast nú mun betur og fyrir talsvert hærra verð en nokkru sinni áður. Þessa breytingu má merkja í flestum uppboðshúsum heims. Enn munar þó miklu sé verðmiðinn borinn saman við listaverk eftir karla. Sama þróun er að verða þegar hlutur kvenna í fastasýningum á stórum söfnum er annars vegar. Árið 1997 voru verk kvenna að meðaltali 1% af fastasýningum á stórum alþjóðlegum söfnum. Árið 2020 var hlutfallið 25%. Birta Björnsdóttir fjallar um málið og ræðir meðal annars við Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, forstöðumann Listasafns Reykjavíkur. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

86 | Þingmaður sem öllu ræður, ráðist á fótboltakonu, konur í myndlistHlustað

20. nóv 2021