Heimskviður

Heimskviður

Í Heimskviðum dagsins er fjallað um kappræður, kórónuveiru, loftslagsmál og afleiðingar kynþáttahyggju í Belgíu og Hollandi. Það er á brattann að sækja í loftslagsmálum. Kórónuveirufaraldur hefur varpað skugga á það nauðsynlega samtal sem þjóðir heims þurfa að eiga um aðgerðir, nú þegar 5 ár eru liðin frá undirritun Parísarsáttmálans. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna átti að fara fram í Glasgow en var frestað til næsta árs og ómögulegt er að spá fyrir um hvað verður rætt þar. Að mati Fionu Harvey, verðlaunablaðamanns breska blaðsins Guardian sem sérhæfir sig í umhverfismálum, verða Parísarmarkmiðin þó aðalmál á dagskrá og hvert heimurinn stefnir. Áhrif veirunnar á heimshagkerfið hljóta þó að bera á góma enda þótt áhrif hennar á loftslagið hafi verið skammvinnari en talið var í fyrstu. Jóhannes Ólafsson, sem er nýr liðsmaður Heimskviða, fjallar um málið og ræðir einnig við Svein Atla Gunnarsson, annan ritstjóra loftslag.is. Hvað situr eftir að loknu sögulegu mótmælasumri í Bandaríkjunum? Talið er að um tuttugu milljónir hafi tekið þátt í mótmælum Black Lives Matter-hreyfingarinnar, en vinsældir hennar hafa dalað síðustu mánuði. En helsta markmiðið náðist, að vekja athygli á kerfisbundnu ofbeldi gegn þeldökkum Bandaríkjamönnum. En það var einnig mótmælt í Evrópu, þar sem krafist var réttlætis en lítið hefur áunnist, að sögn belgískrar baráttukonu og stofnanda Black Speaks Back, sem voru stofnuð til að vekja athygli á afleiðingum kynþáttahyggju í Belgíu og Hollandi. Bjarni Pétur Jónsson fjallar um málið. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

49|Loftslagsváin í skugga Covid-19 og Black Speaks BackHlustað

09. okt 2020