Heimskviður

Heimskviður

Í fimmtugasta þætti Heimskviða er fjallað um vopnaða hópa sem bandaríska alríkislögreglan telur eina mestu ógn sem steðji að landsmönnum, um hópnauðganir á Indlandi og baráttu fyrir afleiðingum slíkra ofbeldisverka og svo er sagt frá sístækkandi hópi fólks sem ákveður að láta sig hverfa í Japan. Hópar vopnaðra manna í Bandaríkjunum verja miklum tíma í að búa sig undir þann möguleika að þurfa á einhverjum tímapunkti að taka upp vopnin gegn sínum eigin stjórnvöldum. Þeir eru hluti af því sem bandaríska alríkislögreglan FBI telur mestu ógnina sem steðjar að Bandaríkjunum - meiri en öll þau erlendu hryðjuverkasamtök sem við þekkjum nöfnin á. Í síðustu viku komust hópar af þessu tagi í fréttirnar þegar upp komst um áform þeirra um að ræna ríkisstjóranum í Michigan. Nýr liðsmaður Heimskviða, Þórunn Elísabet Bogadóttir, fjallar um málið. Undanfarinn mánuðinn hefur fjöldi fólks tekið þátt í mótmælum á Indlandi. Mótmælum gegn viðhorfum og aðgerðum, eða aðgerðaleysi, löggæslumanna þegar kynferðisofbeldi er annars vegar. Tvær ungar konur hafa verið drepnar við samskonar aðstæður þar undanfarnar vikur, nauðgað af fleiri en einum manni svo illa að þær lifðu það ekki af. Konurnar tilheyrðu báðar lægstu stéttum samfélagsins, fólkinu sem er á Indlandi kallað hin ósnertanlegu. Birta Björnsdóttir fjallar um málið. Talið er að þúsundir Japana láti sig hverfa á ári hverju - segi skilið við fyrra líf og byrji upp á nýtt annars staðar. Stundum er þetta leið kvenna út úr ofbeldissamböndum og stundum telur fólk, af ýmsum ástæðum, betra að það fari að eilífu frekar en að kalla einhvers konar skömm yfir fjölskyldu sína. Stofnuð hafa verið svokölluð nætur-flutningafyrirtæki þar sem fólk getur fengið aðstoð við að hverfa sporlaust yfir nótt. Dagný Hulda Erlendsdóttir segir okkur frá. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

50 | Proud Boys, Indland og „Johatsu“ í JapanHlustað

16. okt 2020