Heimskviður

Heimskviður

Í Heimskviðum vikunnar er meðal annars að fjalla um mannréttindabrot í Katar og helstu verkefni nýkjörins Bandaríkjaforseta, Joe Biden. Tæp tvö eru þar til heimsmeistaramót karla í fótbolta verður haldið í þessu smáríki á Arabíuskaganum. Íslendingar vonast til að vera þar meðal þátttökuþjóða, en undankeppni HM hefst í næsta mánuði þegar Íslendingar mæta Þjóðverjum ytra. Þetta er í fyrsta sinn sem heimsmeistaramótið fer fram í Arabalandi og í fyrsta sinn í landi þar sem múslimar eru í meirihluta. Þar sem hitinn á sumrin í Katar fer vel yfir fjörutíu gráður og stundum yfir fimmtíu, verður leikið frá miðjum nóvember fram í miðjan desember. En við ætlum ekki að tala um fótbolta hér, heldur þá staðreynd að það að Katarar hafi ákveðið að halda eitt stykki fótboltamót, hafi gert það að verkum að um sex þúsund og fimm hundruð farandverkavenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladesh og Sri Lanka hafa dáið við uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og öðru sem tengist undirbúningi mótsins, á síðastliðnum áratug. Þetta kom fram í úttekt breska blaðsins Guardian í síðustu viku, og byggir hún á upplýsingum frá stjórnvöldum þessara landa. Þá er einnig farið yfir stöðu mála í Bandaríkjunum. Eða ekki við, Bogi nokkur Ágústsson ætlar að gera það, enda fáir betur til þess fallnir að fara yfir sviðsmyndina þar vestra. Hann ætlar meðal annars að segja okkur frá fystu verkefnum Bidens bæði í innanríkis- og utanríkismálum, stöðuna á Bandaríkjaþingi og líka áhrif fyrrum forseta Donalds Trumps, á Repúblikanaflokkinn. Á fyrsta degi í embætti undirritaði Joe Biden fjölda tilskipana til að afnema ákvarðanir fyrirrennara síns. Biden hyggst gerbreyta stefnu Bandaríkjastjórnar bæði í innanríkis- og utanríkismálum. Demókratar ráða báðum deildum þingsins, en það getur samt reynst þrautin þyngri að hrinda stefnumálum í framkvæmd og uppfylla loforð úr kosningabaráttunni. Bogi Ágústsson veltir fyrir sér við hverju megi búast í bandarískum stjórnmálum á næstunni og ræðir við Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

65 | Fótboltamót í skugga mannréttindabrota og verkefni Joe BidensHlustað

27. feb 2021