Heimskviður

Heimskviður

Við hefjum Heimskviður í dag í Kína. Kínverska tennisstjarnan Peng Shuai greindi frá því í upphafi mánaðar að hátt settur kínverskur ráðamaður og fyrrum varaforseti landsins, hefði brotið á henni kynferðislega. Peng greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Weibo, og einungis 30 mínútum síðar var færsla hennar horfin. Ekkert spurðist til Peng svo vikum skipti. Í fyrri hluta þáttarins er rætt við Öldu Elísu Andersen, alþjóðastjórnmálafræðing um ritskoðun í Kína, mál Peng Shuai og hvers vegna #meToo byltingin á undir högg að sækja í þessa fjölmennasta ríki heims. Í síðari hluta þáttarins bregðum við okkur til Grænlands. Árið 1951 voru 22 grænlensk börn tekin frá fjölskyldum sínum og flutt til Danmerkur. Tilgangurinn var að kenna þeim dönsku svo þau gætu snúið aftur heim og hjálpað dönskum stjórnvöldum að færa Grænland nær nútímanum. Tilraunin mistókst og börnin hafa flest liðið mikið fyrir tilraunina. Í fyrra baðst Mette Frederiksen afsökunar á þessari tilraun fyrir hönd dönsku stjórnarinnar. Nú hafa sex af grænlensku tilraunabörnunum svokölluðu farið fram á bætur frá danska ríkinu vegna vistaskiptanna. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

87 | Grænlensku tilraunabörnin og hvar er Peng Shuai?Hlustað

27. nóv 2021