Heimskviður

Heimskviður

Í Heimskviðum í dag stöndum við við gefin loforð og fjöllum ekkert um bandarísk stjórnmál svona til tilbreytingar. Margt annað kemur þó við sögu í þættinum, til að mynda orð ársins 2020 og ný þáttaröð af The Crown. Þá segjum við frá stöðu Úígúra í Kína og fjöllum um sjálfstæðisbaráttu Skota. Stjórnvöld i Kína eru sökuð um að reyna að eyða menningu Úígúra og að hafa í því skyni lokað eina milljón manns inni í fangabúðum. Þar er fólk neytt til að láta af trú sinni, læra að tala kínversku og er refsað fyrir að eignast mörg börn. Þá eru dæmi um að eftir vistina þar sé fólk sent í þrælkunarvinnu í verksmiðjum. Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um málið. Skotar ákváðu að halda sig við stöðugleikann þegar kosið var gegn sjálfstæði ríkisins fyrir sex árum. Stöðugleiki er hins vegar ekki orð sem margir myndu nota um bresk stjórnmál síðan þá. Staðan er gjörbreytt og krafan um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæðið hefur aldrei verið háværari. Þórunn Elísabet Bogadóttir segir frá. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

54 | Ofsóknir Kínverja á Úígúrum og sjálfstæðisbarátta SkotlandsHlustað

13. nóv 2020