Ólafur Jóhann er einn þekktasti og vinsælasti rithöfundur landsins, en hann hefur jafnframt fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og áhugaverðar tengingar við Japan í gegnum störf sín í u.þ.b. áratug fyrir japanska stórfyrirtækið Sony. Nýjasta bók Ólafs, Snerting, sem var söluhæsta bók landsins árið 2020, gerist að miklu leyti á japönskum veitingastað í London og í Japan. Í höfundarspjallinu fáum við bæði að skyggnast inn í störf Ólafs Jóhanns hjá Sony, sem meðal annars fól í sér alþjóðlega markaðssetningu á PlayStation leikjavélinni, og ræða viðfangsefnin í nýju skáldsögunni Snertingu. Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum, leiðir samtalið við Ólaf Jóhann.
Viðburðurinn var hluti af hinni árlegu Japanshátíð sem er skipulögð af Japönskudeild Háskóla Íslands. Hátíðin er haldin í samstarfi við Sendiráð Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagið og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.