Gestur þáttarins að þessu sinni er svo sannarlega ekki af verri endanum, hann er nefnilega Sigurður Lárus Hall matreiðslumeistari, betur þekktur sem Siggi Hall. Siggi er sennilega frægasti kokkur á Íslandi. Hann var um langt árabil með vinsælustu kokkaþætti á landinu á Stöð 2 og er einn af upphafsmönnum og eigandi Food and Fun hátíðarinnar.
Siggi er kokkur og saga hans er ótrúleg. Við förum yfir árin í Danmörku, Noregi, Hveragerði og á Óðinsvéum. Siggi er mikill sögumaður og ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að tosa upp úr honum sögurnar, enda er þátturinn sá lengsti sem ég hef gert. En ég held að það komi ekki að sök því það var aldrei dauð stund og ég skemmti mér konunglega allan tímann sem við spjölluðum. Ég er viss um að þið gerið það líka.