Hlaðvarpsþátturinn „Leiðin okkar allra“ tekur á því að mæta fólki á ferð - og huga að. Það er horft aftur um lífsleiðina og velt fyrir sér vægi hinnar andlegu vegferðar í því ferli að halda jafnvæginu. Eins og segir í ljóði Einars Georgs Einarssonar, þá geta örlögin valdið því að einn daginn verður maðurinn að halda af stað. Við getum aldrei vitað hvað mun mæta okkur á morgun, svo það er kannski bara ágætt að velta aðeins vöngum yfir lífsgildum sínum áður en lagt er af stað. Í þessum mannlegu þáttum Kirkjuvarpsins, í umsjón Arnaldar Mána, velta Bolli Pétur og Ása Laufey því fyrir sér ásamt viðmælendum sínum hvað það kann að vera sem fær manninn til að velta vöngum yfir tilgangi lífsins leiðina á enda. Það eru sem áður ljós og skuggar, brekkur og sléttur, einn Guð og allir - eða enginn; það er fjallað um trú og trúleysi, um heilbrigðar og óheilbrigðar guðsmyndir, rýnt í sjálfið og sjálfsvitundina, hið ómeðvitaða og meðvitaða. Umfjöllunarefnið er ekki síst reynsla mannsins í stóra samhenginu, súrir og sætir sigrar og dauðadjúpar sorgir. Einhvernveginn kemur allt saman á tilviljunarkenndan en jafnframt með merkingarbærum hætti í því sem við köllum sammannlegt. Eða það segir Bolli allaveganna.Við tæklum ekki hið huglæga aðeins á hlutlægan hátt, það er gömul saga og ný; það þarf að mæta raunum sálar með hjálp í sjálfum andanum. Hvernig gerir fólk það, hver eru bjargráðin? Hér er spurt um það hvað hafi stutt við viðmælendur Leiðarinnar okkar allraen þeir koma úr ólíkum áttum, með ólíkan bakgrunn, ólíkar væntingar og þrár, ólíka menntun og reynslu. Leiðin markast alltaf af lífsreynslu okkar, undirstöðunum og þránni - en ekki síst af því hvernig leiðir við nýtum okkur til að vinna úr því sem á reynir. Ása er mikil áhugamanneskja um þær leiðir. Fróðlegt hlaðvarp um hina andlegu vegferð þar sem áföll, vegtyllur, skóleysi og skringilegar tilviljanir bæði leiða okkur í villur og koma okkur á sporið; svo við rötum aftur leiðina heim. Ása Laufey Sæmundsdóttir og Bolli Pétur Bollason eru sálgætar og prestar sem starfa í söfnuðum á vegum Þjóðkirkjunnar, en fá í þessum þáttum til sín fólk úr ýmsum áttum sem á þó merkilega margt sameiginlegt. Umsjónarmaður og hljóðsnyrtir er Arnaldur Máni Finnsson.Þátturinn er tekinn upp í Skrúðhúsinu, Katrínartúni 4 og gefinn út af Kirkjuvarpinu, hlaðvarpsveitu Þjóðkirkjunnar. Upphafsstef og söngur: Þorsteinn Einarsson.Ljóðið „Leiðin okkar allra“ er eftir Einar Georg EinarssonLjósmynd í logoi þáttarins á Völundur JónssonÞakkir til þeirra þriggja - og fararblessun þér til handa á leiðinni!