Haukur Ingi Jónasson er lektor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og formaður stjórnar MPM-náms skólans. Hann hefur komið að margþættum rannsóknum á sviði stjórnunarfræða og er meðhöfundur sex bóka á íslensku (JPV) og fimm bóka á ensku (Routledge/Taylor and Francis).Haukur lauk doktorsnámi sínu við Union Theological Seminary í New York en þar las hann sálarfræði, geðsjúkdóma- og geðlæknisfræði, sálgreiningu, analýtíska sálfræði í sögu og samtíð, og hagnýta og kennimannlega guðfræði með sérstakri áherslu á beitingu hennar í klínískri vinnu, við kennslu, í atvinnulífi og í nútíma samfélagi. Samhliða doktorsnámi stundaði Haukur klínísk nám við Harlem Family Institute, Health Care Chaplaincy og Lenox Hill-sjúkrahúsið í New York. Í doktorsritgerð sinni In a Land of a Living God, The Healing Imagination and the Icelandic Heritage, setur Haukur fram kenningu sem útskýrir virkni ímyndunaraflsins í mannshuganum. Ímyndunaraflið er skilgreint sem samsetning (e. synthesis) sálræn efnis í nýjar hugmyndir þannig að til verða táknmyndir sem standa fyrir fjarverandi hluti, geðhrif, líkamlega virkni, líkamlegt ástand, minningar, hneigðir, hvatir. Afurðir þessa eru myndir, tákn, órar, draumar, hugmyndir, hugsanir og/eða hugtök. Þá heldur hann því fram að ímyndunaraflið sé frábrugðið órum að því leiti að í stað þess að vera á skjön við veruleikann þá nýtist heilbrigt ímyndunarafl til virkrar aðlögunar að veruleikanum til dæmis í sköpun og nýsköpun ýmiskonar.
Að þekkja skugga sinn og drauma: Haukur Ingi Jónasson