Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Það fæðast að meðaltali 70 börn á ári með hjartagalla á Íslandi, mörg þeirra þurfa flóknar aðgerðir og ævilanga eftirfylgni. Þrátt fyrir að læknisfræðilegri aðstoð hafi fleygt fram, þá gleymist oft andlegi og félagslegi þátturinn, til dæmis hvernig börnin og aðstandendur þeirra upplifa lífið með hjartagalla. Guðrún Kristín Jóhannesdóttir, formaður Neistans, styrktarfélags barna með hjartagalla og Óskar Ericsson, framkvæmdastjóri félagsins komu í þáttinn í dag og fræddu okkur um málefni barna með hjartagalla og vitundarvikuna sem er framundan. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir er með doktorspróf í sagnfræði og hún er sérfræðingur í sögu hákarlamanna fyrr á öldum og mun flytja erindi á málþingi næsta laugardag í boði Félags um átjándu aldar fræði. Dalrún mun fjalla um samband hákarlamanna við hákarlinn á 19.öld.En hún leggur stund á rannsóknir á náttúrusögu Íslands. Við fengum hana til að segja okkur frá hákörlum og samspilinu milli hákarla og hákarlamanna 19.öld, á blómaskeiði hákarlaveiði á Íslandi. Hraðstefnumót fyrir eldri borgara verður í Bíó Paradís í tilefni af frumsýningu myndarinnar Eftirlætis kakan mín (My Favourite Cake) í aðdraganda Valentínusardagsins en frumsýningin verður á miðvikudaginn 12. febrúar kl 14:00. Sett verða upp borð á kaffihúsi Bíó Paradís þar sem kaffi og kleinur verða í boði. Hver þátttakandi fær 5 mínútur á hverju borði og leiðbeinandi spurningarblað við komu þar sem fólk getur kynnst hvort öðru. Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri Bíó Paradís kom og sagði okkur frá þessum viðburði í dag. Tónlist í þættinum í dag: Skítaveður / Bogomil Font og Greiningardeildin (Bragi Valdimar Skúlason) Borgartún / Snorri Helgason (Snorri Helgason) Vonarströnd / Íkorni (Stefán Örn Gunnlaugsson) Lítið og væmið / Valdimar (Valdimar Guðmundsson) Til þín ástin mín / Stefán Helgi Stefánsson (Óli H. Þórðarson, texti Viktor A. Guðlaugsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Börn með hjartagalla, hákarlaveiðar á 19. öld og hraðstefnumót fyrir eldri borgaraHlustað

05. feb 2025