Sigurbjörn Bárðarson, hestamaður, tamningameistari, landsliðsþjálfari og afreksmaður er þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og einn verðlaunaðasti íþróttamaður íslenskrar íþróttasögu. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 og var tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í ársbyrjun 2025. Á laugardaginn verður frumsýnd ný íslensk heimildarmynd, Sigurvilji, um Sigurbjörn og hann var hjá okkur í dag og við ræddum við hann um þennan ótrúlega feril, heimildarmyndina, fjölskylduna og auðvitað samband hans við hestinn.
Karlakórinn Voces Masculorum er að eigin sögn langbesti og hógværasti karlakór landsins. Kórinn var stofnaður árið 2000 og hefur aðallega helgað sig söng við jarðafarir. Nú er kórinn 25 ára og heldur uppá það með tónleikum og á dagskránni eru, eins og þeir orða það, aðallega lögin við vinnunna eða útfararsálmar en einnig hefðbundin karlakóraviðfangsefni bæði innlend og erlend. Gissur Páll Gissurarson og Hjálmar P. Pétursson komu til okkar í dag í spjall og við fengum í lokin að heyra í kórnum.
Tónlist í þættinum í dag:
Reiðmenn vindanna / Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna (Stan Jones, texti Bragi Valdimar Skúlason)
Allir eru að fara í kántrí / Baggalútur (Bragi Valdimar Skúlason)
Heilig heilig / Voces Masculorum (Franz Schubert)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Ný heimildarmynd um Sigurbjörn Bárðarson og Voces Masculorum