Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Bataskólinn er fyrir fólk sem glímt hefur við geðrænar áskoranir og aðstandendur þeirra. Þar er boðið upp á fjölbreytt námskeið sem fjalla öll um bata á einhvern hátt nemendum að kostnaðarlausu. Í síðustu viku var haldinn opinn kynningarfundur um Bataskólann og starfsemi hans og þær Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri og Sigrún Sigurðardóttir, jafningjafræðari, komu í þáttinn í dag og sögðu okkur betur frá skólanum, starfseminni og því sem þar er boðið upp á. Eins og við sögðum frá á mánudaginn, þá er Mannlegi þátturinn 10 ára og við rifjuðum í dag upp viðtal frá fyrstu viku þáttarins. Þá fórum við í ferð til Vestfjarða og komum við í Tjöruhúsinu, veitingastaðnum í Neðstakaupstað á Ísafirði. Hjónin sem reka staðinn voru ekki við, en dóttir þeirra Salóme Magnúsdóttur, þá 19 ára, tók á móti okkur. Við heyrðum þetta 10 ára gamla viðtal og í framhaldinu heyrðum við aftur í Salóme, en hún er auðvitað 10 árum eldri í dag. Hún var sem sagt að heyra viðtalið við sig í fyrsta skipti síðan þá og í rauninni mundi hún ekkert eftir því. Það var gaman að heyra hvað hafði á daga hennar drifið síðan þá. Tónlist í þættinum: Sólin er komin / Mugison (Örn Elías Guðmundsson) Kaffi Tröð / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson) Kvöld / Egill Ólafsson og Villi Valli (Villi Valli) Quietly / Salóme Katrín Magnúsdóttir (Salóme Katrín Magnúsdóttir) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Bataskólinn og Salóme Katrín með tíu ára millibiliHlustað

04. sep 2024