Við fræddumst um Vertonet, samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni á Íslandi, í þættinum í dag, eða nánar tiltekið um átaksverkefni Vertonet sem er samvinnuverkefni yfir 20 fyrirtækja, samtaka og menntastofnanna í upplýsingatækni til að auka hlut kvenna og kvára í tæknigeiranum á Íslandi. Tæknigeirinn hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og talið er að það vanti um níu þúsund sérfræðinga til að standa undir þeim vaxtaráformum sem eru til staðar í hugverkaiðnaðinum hér á landi. Ásdís Eir Símonardóttur, stjórnenda- og mannauðsráðgjafi og driffjöður átaksverkefnis Vertonet sagði okkur betur frá þessu í þættinum.
Viltu heilbrigðari samskipti og sambönd? Einlægni og nánd í stað spennu og fjarlægðar og vera með opið hjarta án ótta við höfnun? Gyða Dröfn Tryggvadóttir starfar sem meðferðararaðili í áfalla- og uppeldisfræðum hún fræddii okkur í dag um óheilbrigð mynstur í samböndum sem fara sama hringinn aftur og aftur og koma í veg fyrir þá einlægni og nánd. Það sem í daglegu tali kallað ástarþrá og ástarfælni.
Svo kom Einar Sveinbjörnsson til okkar í veðurspjallið. Hann talaði um hitann á landinu í nótt sem er óvenjulegur í alla staði, en þó ekki met þó nærri hafi farið. Hann tengdi hitann við uppruna loftsins suður í höfum og heitum sjó þar. Einar talaði svo um eftirtektarverða hita á Kanaríeyjum síðustu daga. Það rigndi mikið fyrir vestan og með vatnavöxtum og skemmdum á vegum, 111 mm. sólarhringsúrkoma á Hólum í Dýrafirði, sem þykir með mesta móti þar. Það er svo von á stórrigningu að nýju á fimmutdag og svo skoðuðum í lokin við langtímaspána með Einari, en umskiptum er spáð á föstudag með kólnandi veðri.
Tónlist í þættinum
Einsemd / Snorri Helgason (Snorri Helgason og Guðmundur Óskar Guðmundsson)
Sólin er komin / Mugison (Örn Elías Guðmundsson)
Með vaxandi þrá / Geirmundur Valtýsson og Erna Gunnarsdóttir Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar (Geirmundur Valtýsson og Hjálmar Jónsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Vertonet, ástarþrá og ástarfælni og veðurspjallið með Einari