Í þættinum ræðir Erla við Hjördísi Ýrr Skúladóttur, formann MS félags Íslands um MS-sjúkdóminn, fjölbreytt einkenni hans, greiningu, úrræði, tegundir lyfja og hvernig heilbrigður lífstíll getur haft áhrif á framgang sjúkdómsins og einkenni hans. MS-sjúkdómurinn er oft nefndur sjúkdómurinn með 1000 andlit þar sem að einkenni hans eru mjög fjölbreytt og óútreiknanleg. MS er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu, þ.e. heila og mænu, þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða. Hægt er að lesa nánar um sjúkdóminn á heimasíðu MS- félagsins. Sjúkdómurinn getur verið lífstílstengdur og það er mikilvægt að huga vel að almennri heilsu. Einkenni geta t.d. látið á sér kræla þegar stressið fer að banka upp á.Hjördís segir að þeir sem eru með sjúkdóminn geti bætt lífsgæði sín með því að velja í hvað þeir nýta orkuna sína, hafa jafnvægi í mataræði, hreyfingu og svefni og þora að lyfta þungu og reyna á sig. Hjördís greindist sjálf með MS árið 2015 og finnst sjúkdómurinn ekki mjög hamlandi fyrir sitt líf. Það er sjaldan lognmolla í kringum Hjördísi og þó að hún upplifi sig með minni orku en áður þá segist hún þó gera meira en margir sem eru ekki með MS. Sjúkdómurinn gaf henni aðra innsýn inn í lífið og það er hennar von að hún geti verið falleg fyrrimynd fyrir einhverja og látið gott af sér leiða. Heilsa fyrir Hjördísi er að finna innri frið og finna sína gleði. Jafnvægi er sterkasta orðið sem hún finnur fyrir heilsu, þ.e. að gera ekki of og ekki van. MS-félagið er hagsmunafélag einstaklinga með MS, stofnað 20. september 1968. Félagið hvetur einstaklinga með MS-sjúkdóminn, aðstandendur og aðra áhugasama til að skrá sig í félagið og njóta þannig góðs af því sem félagið hefur upp á að bjóða. Maí er einmitt vitundarvakningarmánuður hjá MS félaginu og þemað í ár er Mitt MS - mín greining. Alþjóðadagur MS er 30.maí en vorhátíð verður síðasta miðvikudag í maí.Hjördís segir það verða spennandi að sjá hvað framtíðin beri í skauti sér og draumur hennar er að það verði til lækning eða bólusetning við MS. MS félagið á InstagramSendu HeilsuErlu skilaboðErt þú ekki örugglega að fylgja HeilsuErlu á Instagram?
#45. MS-sjúkdómurinn og heilsa. Hjördís Ýrr Skúladóttir