Miðvikudagur 6. nóvember
Trump, efnahagur, stjórnarskrá, neytendur, rödd almennings, verkfallsvakt.
Við Rauða borðið í kvöld verður tekið á grundvallarmálunum og nýjustu fréttum. Sigurjón Magnús Egilsson tekur á móti góðum gestum í beina útsendingu til að ræða meðal annars um úrslit kosninganna í Bandaríkjunum; Eva Bergþóra Þorbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, Gunnnar Hólmsteinn Ársælsson, kennari, Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur, Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði í Háskóla Íslands. Efnahagsstjórnin hér hefur gengið frekar illa, ríkissjóður er rekinn með halla ár eftir ár. Hvers vegna er það og hvað er unnt að gera til að snúa þessu við? Við fáum fjóra góða hagfræðinga til að greina stöðuna. Þeir eru: Þórólfur Matthíasson, prófessor emeritus, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB, Ólafur Garðar Halldórsson, hagfræðingur hjá SA og Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ. Hjörtur Hjartarson og Katrín Oddsdóttir Stjórnarskrárfélaginu setja nýja stjórnarskrá á dagskrá og útskýra hvers vegna það er kosningamál sem liggur til grundvallar öllum helstu kröfum okkur og draumum um betra líf og réttlátara. Benjamín Julian fer yfir neytendafréttir og fólk á förnum vegi svarar spurningum um stjórnarskrá sem kosningamál og hvað þurfi til að gera til að bjarga ríkissjóði úr halla. Á Verkfallsvakt Rauða borðsins ræðir Haukur Hilmarsson, smíðakennari í Reykjanesbæ um kennara sem blóraböggla en hann skrifaði samninganefndunum skeyti í formi dagbókar kennara sem varpar ljósi á umfang starfsins sem er vanmetið.