Fimmtudagur 23. janúar
Yfirdráttur, klassík, kjötneysla dýravernd, bómenntir og BNA
Við hefjum leik á Samstöðinni í kvöld með Stefáni Jóni Hafstein sem færir okkur sláandi upplýsingar um umhverfismál. Á morgun, 24. janúar, fer Ísland á ,,yfirdrátt” gagnvart vistkerfunum, það er að segja ef önnur lönd væru með eins stórt vistspor. Við göngum allra ríkja mest á auðlindir. Og rætt verður endurkjör Trump og áhrif þess á umhverfið. Tónlistarnemarnir Sóley Smáradóttir og Sól Björnsdóttir taka því næst á móti Daníel Bjarnasyni tónskáldi og hljómsveitarstjóra og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur tónskáldi í Klassíkin rokkar. Jóhanna Eyrún Torfadóttir lektor í næringarfræði og Thor Aspelund prófessor í tölfræði koma og ræða um kjötneyslu. Framkvæmdastjóri Dýraverndarsambands Íslands og Katrín Oddsdóttir, mann- og dýraréttindalögfræðingur segja margt bíða nýrrar ríkisstjórnar með tilliti til dýravelferðar sem hafi setið á hakanum vegna vanmáttugs kerfis. Tími sé kominn á að færa Ísland aftur til náttúrunnar en ekki í hendur auðvaldsins og stórfyrirtækja. Vigdís Grímsdóttir og Oddný Eir ræða við skáldkonuna Ásdísi Óladóttur um ljóðabók hennar Rifsberjadalurinn, ljóðlistina, 30 grömmin, geðveikina og sköpunarkraftinn. Við ljúkum þætti kvöldsins með zoom-viðtali við Rósu Guðmunds sem er búsett í L.A. Hún segir okkur frá eldunum sem þar hafa geisað og embættistöku nýs forseta.
Rauða borðið 23. jan - Yfirdráttur, klassík, kjötneysla dýravernd, bómenntir og BNA