Þótt eldgos verði seint hversdagsleg hafa eflaust einhverjir yppt öxlum þegar byrjaði að gjósa á Sundhnúksgígaröðinni á miðvikudagskvöld. Gosstrókarnir voru vissulega tilkomumiklir í vetrarmyrkrinu en þetta var nú einu sinni sjöunda gosið þarna, það sjötta bara á þessu ári. Íslandsstofa vinnur að því að segja við erlenda ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki að eldgos séu bara hluti af hinu daglega lífi á Íslandi.
COP 29, 29. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin er í Bakú í Aserbaísjan, á að ljúka í dag en það er allt útlit fyrir að hún dragist eitthvað á langinn, enda þátttakendur í vandræðum með að koma sér saman um orðalag lokasamþykktarinnar eins og stundum áður. Þessar ráðstefnur, þar sem þúsundir ráðamanna, sérfræðinga og fulltrúa hagsmuna- og umhverfisverndarsamtaka alstaðar að úr heiminum safnast saman, eru umdeildar - og árangurinn af þeim líka.
Möguleg þjóðaratkvæðagreiðsla um umsókn að Evrópusambandinu er komin á dagskrá í kosningabaráttunni, ekki síst vegna stöðu Samfylkingar og Viðreisnar í skoðanakönnunum og ummæla leiðtoga flokkanna að undanförnu. Í Noregi er vel fylgst með þessum umræðum, enda gæti möguleg innganga Íslendinga þýtt endalok samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Eldgos hluti af hinu daglega líf, loftslagsráðstefnan í Bakú og Noregur með annað augað á Íslandi