Spegillinn

Spegillinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir jákvætt að Evrópusambandið líti þannig á að aðildarumsókn Íslands frá 2009 sé enn virk. Talsmaður framkvæmdastjórnar ESB staðfesti þetta í dag - en Þorgerður átti síðdegis fund með Maros Sefcovic, einum af framkvæmdastjórum ESB, sem fer með viðskiptamál og samskiptin við EES ríkin, Ísland, Noreg og Lichtenstein. Þorgerður hitti einnig Kaju Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Björn Malmquist fréttamaður hitti Þorgerði síðdegis. Frá því í maí í fyrra hefur Ísraelsher gert minnst níutíu og sjö árásir á svæði á Gaza, sem herinn hafði áður skilgreint sem svokölluð mannúðarsvæði og hvatt palestínskan almenning til að leita þar skjóls til að tryggja öryggi sitt og sinna. Þetta er niðurstaða rannsóknarteymis breska ríkisútvarpsins BBC, BBC Verify, sem hefur unnið að því undanfarna mánuði að sannreyna fregnir af slíkum árásum. Ævar Örn Jósepsson rýnir í skýrslu teymisins. Í þremur tilfellum sem fjallað hefur verið um síðustu daga komust utankjörfundaratkvæði í alþingiskosningunum ekki til skila. Í Kópavogi urðu 25 utankjörfundaratkvæði innlyksa á bæjarskrifstofum og var ekki komið til talningar, í Norðausturkjördæmi fékk yfirkjörstjórn kassa með atkvæðum 11 dögum eftir að kosið var og ekki er vitað hve mörg þau voru, og tvö utankjörfundaratkvæði skiluðu sér ekki frá Seltjarnarnesi á talningarstað. Í kosningum er alltaf eitthvað um að utankjörfundaratkvæði berist ekki í tæka tíð - En er hægt að horfa til einhverra sérstakra kringumstæðna og telja atkvæði sem koma of seint? Anna Kristín Jónsdóttir ræddi þetta við Bergþóru Sigmundsdóttur lögfræðing og stjórnmálafræðing, sem sá lengi um utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumanni. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon

ESB-umsókn, árásir Ísraelshers á „örugg svæði“ á Gaza, meðferð utankjörfundaratkvæðaHlustað

15. jan 2025