Spegillinn

Spegillinn

Áhrif umbrotanna á suðvestanverðum Reykjanesskaganum síðustu misseri teygja sig víða, eins og Benedikt Sigurðsson komst að þegar hann hitti Halldór Geirsson jarðeðlisfræðing að máli í Búrfellsgjá, skammt suðaustur af Vífilsstaðavatni, sem liggur þvert á það sem kallast sprungusveimur Krýsuvíkureldstöðvakerfisins. Í honum eru virkar gliðnunarsprungur sem teygja sig nokkra tugi kílómetra til norðausturs. Við skoðun á gervitunglamælingum fyrir nokkrum árum tóku jarðvísindamenn eftir nokkurra millimetra hreyfingum á þessum sprungum, segir Halldór, og frekari rannsóknir sýndu aukna gliðnun á allra síðustu árum, eftir að yfirstandandi umbrot hófust. Þrítugustu og þriðju Ólympíuleikar nútímans voru settir í París í Frakklandi í dag. Þetta er í þriðja skipti sem Ólympíuleikar eru haldnir í París, þar sem þeir voru fyrst haldnir aldamótaárið 1900 og svo aftur fyrir réttri öld, 1924. Keppnisviðburðir eru 329 í 32 íþróttagreinum og keppendur 10.714 frá 206 ríkjum - en ekki Rússlandi og Belarús. Tíu þjóðir hafa áður verið útilokaðar frá leikunum og gagnrýnt hefur verið að Ísrael skuli ekki hafa verið meinuð þátttaka að þessu sinni. Ævar Örn Jósepsson segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred

Gliðnun á sprungum frá Krýsuvík til Hólmsheiðar, Ólympíuleikar, útilokanir og öryggisgæslaHlustað

26. júl 2024