Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins situr fyrir svörum í leiðtogaspjalli undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar í nýjasta þætti Spursmála.
Flokkur Sigmundar Davíðs hefur verið í sókn að undanförnu og nú hefur hann, líkt og aðrir, kynnt oddvita í hverju kjördæmi ásamt framboðslistum.
Hvert stefni Sigmundur ef niðurstaða kosninga verður með þeim hætti sem kannanir gefa til kynna? Sér hann samstarfsflöt við aðra flokk og hvar er hann reiðubúinn að gefa eftir?
Auk Sigmundar mættu þau Erna Mist Yamagata, listakona og pistlahöfundur, sem situr í 9. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, í settið til að fara yfir það sem er efst á baugi á hinu pólitíska sviði hérlendis og erlendis.
Líkt og undanfarna föstudaga mætti Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, til leiks og fór yfir nýjustu tölur úr skoðanakönnun Prósents í þættinum og varpaði ljósi á fylgi flokkanna sem bjóða fram á landsvísu.