Hátt í þrjú hundruð manns mættu á kosningauppgjör Spursmála sem efnt var til á Reykjavik Hilton Nordica tæpum sólarhring eftir að kjörstöðum lokaði hringinn í kringum landið.
Þótti við hæfi að ljúka umfjöllun um kosningabaráttuna með þessum hætti þar sem Spursmál hafa reynst einn virkasti og spennuþrungnasti vettvangur baráttunnar allt frá því að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra sleit ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG um miðjan október.
Fyrst kom á svæðið Inga Sæland sem vann sterkan sigur með Flokki fólksins en flest bendir til þess að hún verði við samningaborðið í fyrstu lotu viðræðna um stjórnarmyndun frá miðju og til vinstri. Með henni í sófann mætti Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu en hann rýndi sérstaklega í þær tölur sem blöstu við að lokinni talningu.
Að því spjalli loknu mættu þau Snorri Másson, nýbakaður þingmaður Miðflokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hún er af mörgum talin líklegust til þess að hreppa sigursveiginn, þ.e. embætti forsætisráðherra enda er ljóst að flokkur hennar getur næsta auðveldlega hallað sér til hægri jafnt sem vinstri í ljósi niðurstöðu kosninganna.
Að lokum fékk Stefán Einar til skrafs og ráðagerða þá Gísla Frey Valdórsson, ritstjóra Þjóðmála og Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins. Hafði Vilhjálmur sérstaklega á orði að þeir flokkar sem hefðu barist hvað hatrammast gegn hvalveiðum væru nú dottnir út af þingi og fagnaði hann því einarðlega. Segir hann næstu stjórn eiga að snúast um verðmætasköpun sem nýtast megi þjóðinni allri.
Gísli Freyr ræddi stöðuna út frá öðrum sjónarhornum en sagði meðal annars að Vinstri grænum hefði ekki verið hafnað vegna stjórnarsamstarfsins sem nú er á enda runnið, heldur vegna þeirrar stefnu sem þeir hafa talað fyrir af mikilli einurð.
#. 53 - Kosningauppgjör með áhorfendum og ný stjórnarmynstur mátuð