Tinna Stefánsdóttir sjúkraþjálfari lennti í því eftir 14 ára starf að geta takmarkað unnið við bekkinn sem sjúkraþjálfari. Hún var þó ekki tilbúin til þess að segja skilið við vinnuna sem hún elskar og fór því að leita annarra leiða. „Ég byrjaði að pæla í því hvernig ég gæti hitt mína skjólstæðinga, gefið þeim ráð og leiðbeint án þess að ég væri að nudda þá eða standa yfir þeim allan daginn. Þarna var leið,“ segir Tinna í viðtali í íþróttaþættinum Taktíkin á N4.
Loksins kominn með tól sem hentaði
„Ég hitti Stebba [Stefán Ólafsson] út í búð, við fórum að ræða þetta og ég ákvað að prófa þessa leið. Ég hafði áður sent frá mér æfingaáætlanir á einhverjum Word skjölum með misgóðum myndböndum af Youtube og öðrum stöðum og aldrei almennilega ánægð með það. Þarna var ég loksins komin með tól með öllum þessum sjúkraþjálfaraæfingum til þess að senda frá mér.“
Afrakstur margra ára vinnu
Undanfarin ár hefur Stefán Ólafsson unnið að gerð æfingamyndbanda og æfingaáætlana með það að markmiði að gera sjúkraþjálfun aðgengilegri og notendavænni fyrir bæði þjálfara og skjólstæðinga. Vinnan hefur tekið mörg ár í þróun en er nú komin á það stig að vera aðgengileg inná vefnum fjarmedferd.is. „Þetta er verkefni sem mun þróast áfram og má sífellt bæta en loks erum við kominn á þann stað að við getum boðið þessa lausn, til aðila sem sinna þjálfun,“ segir Stefán.
Hefur sagt skilið við gamlar aðferðir
Í dag hefur Stefán því sagt skilið við Word og Excel skjöl og sinnir þess í stað fjarmeðferð í sjúkaþjálfun gegnum vefinn. Þetta er þó ekki einungis ætlað fyrir hans skjólstæðinga heldur geta aðrir þjálfara nýtt sér fjarmedferd.is í sinni þjáfun. „Þó að mitt hlutverk hafi verið að sinna æfingavali og myndbandagerð, þá er að baki verkefninu hópur sjúkraþjálfara og hefur Andri Marteinsson verið verkstjórinn yfir okkur. Höfum við átt afar gott samstarf við tölvufyrirtækin Learncove og Karaconnect og fagaðila við tökur og klippingar.“
Kallað eftir stafrænum lausnum
„Ég hef sjálfur notað vefinn frá því í haust í tengslum við æfingáætlanir, en nú eru aðstæður í þjóðfélaginu þannig, að kallað er eftir lausn sem þessari, þegar sjúkraþjálfarar erum að mestu bundnir heima sem og okkar skjólstæðingar.“
#74 Stefán Ólafsson og Tinna Stefánsdóttir - Sjúkraþjálfun