Taktíkin

Taktíkin

„Það er engin íþrótt svo slæm að hún sé eki betri en að gera ekki neitt“ Ræðum um líkamsstöðu, hlaupagreiningu, æfingar og margt annað sem tengist sjúkraþjálfun. Gestur Skúla B. Geirdal í þessum þætti er Þórhallur Guðmundsson sjúkraþjálfari. „Ég myndi frekar vilja að þú færir í 20 mínútur í búrið með Gunnari Nelson fjórum sinnum í viku heldur en að sitja heima í sófanum að horfa á Law & Order“ ➡️  78 ára með þrjá gerviliði í CrossFit ⬅️ „Það er kona sem var hjá mér í sjúkraþjálfun. Það var búið að skipta um annað hnéð og báðar mjaðmirnar og hún var farin að hugsa um að það þyrfti að skipta um hitt hnéð líka. Ég bauna á hana og spyr hvort þetta sé nú ekki að verða komið gott, að hún sé að verða búin með varahlutina og hvort hún sé búin að finna sér góðan stað uppí garði. Hún var búin að vera hjá mér í nokkur ár þannig að ég vissi að ég mætti bauna aðeins á hana því hún svarar mér alltaf fullum hálsi.“ „Síðan kemur hún til mín einn daginn og segir „ég er búin að vera að hugsa um þetta sem þú sagðir og auðvitað er þetta rétt. Ég er ekki nema 78 ára og ætti að vera á mikið betri stað en þetta. Ég fór því að leita af íþrótt sem að myndi henta mér og datt þá í hug að fara í CrossFit, hvernig líst þér á það?.“ Ég gat auðvitað ekki annað en sagt henni að láta slag standa með það.“ „Við tókum þá eitt ár í að undirbúa hana og gerðum æfingar í stíl við CrossFit. Síðan fórum við saman á æfingu í CrossFit til Brynjars í CrossFit Hamri og hún er búin að vera að æfa CrossFit síðan. Þetta hefur gjörbreytt hennar lífi. Í dag er það þannig þá daga sem hún kemur til mín þá vaknar hún, fer í CrossFit, leggur síðan bílnum upp við kirkju, hleypur niður tröppurnar, inn göngugötuna, upp á þriðju hæð til mín, tekur æfingu með mér, hleypur aftur niður, út göngugötuna, upp kirkjutröppurnar og síðan heim. Þetta er fyrir hádegismat.“ „Ég spurði hana síðan fyrir tveimur árum síðan hvernig staðan væri á hnénu sem ekki væri búið að skipta um. Hvort hún væri enn að stefna á að láta skipta um það. Hún svaraði því þá um leið neitandi og sagði að það hné væri í dag góði liðurinn. Það eru gerviliðirnir sem eru orðnir meira vandamál en hnéð sem var áður að verða svo slitið að það var að verða ónýtt.“

#84 Þórhallur Guðmundsson - sjúkraþjálfariHlustað

01. sep 2020