Hjalti Karlsson vissi ekkert hvert hann væri að fara með líf sitt þegar hann sótti um í Listaháskólanum til þess eins að fá höfnun frá honum. Þrátt fyrir brjálæðislega feimni náði lífið að leiða Hjalta til New York þar sem hann fékk inn í listaháskólann Parsons og þaðan í læri hjá Stefan Sagmeister, virtum hönnuði í New York sem hannaði m.a. plötuumslög fyrir heitustu hljómsveitir samtímans, sem markaði upphaf af glæstum hönnunarferli Hjalta. Hönnunarstofan hans hefur unnið fyrir BMW, Bloomberg, Samsung, Adobe, Parsons og fleiri. Inntak þáttarins blandast í umræðu um rekstur, hönnun, hvernig skal verðleggja vinnu sína, að hafna kúnnunum sem borga best, áhugaverð verkefni, lífið í New York og árásirnar á Tvíburaturnana.