Ég kitlaði hlustendur í lok síðasta þáttar um að viðfangsefni þess næsta myndi hugsanlega vera ennþá eldfimara en Eurovision. Ég get auðvitað ekki gert ykkur upp skoðanir en það er að minnsta kosti víst að það hefur verið rætt jafn mikið um sjókvíaeldi og Eurovision síðustu mánuði. Ég hef heyrt allskonar útundan mér, séð auglýsingar, fréttir, en á sama tíma átt erfitt með að mynda mér mínar eigin skoðanir. Því ég er ekki veiðimaður, nema ef við viljum taka ferð í Veiðivötn þegar ég var í kringum 10 ára aldur með í reikninginn. Þessvegna get ég ekki sagt að laxar, eða laxastofn Íslands hafi verið mér sérstaklega hugleikinn í gegnum tíðina. En hvað sem því líður er mér annt um landið mitt, landið okkar, sem hefur gefið okkur möguleikann á því að draga hér fram líf í meira en 1000 ár. Svo þáttur dagsins er ekki einungis um sjókvíaeldi sem fyrirbæri heldur umræðuna, lagafrumvörpin og ágreiningsefnin í leiðinni. Það eru fáir sem þekkja laxastofna Íslands betur en Jóhannes Sturlaugsson, svo hann er kominn til að segja okkur um hvað málið snýst svo setjið ykkur í stellingar, því þetta verður kryddað samtal