Virðing í uppeldi

Virðing í uppeldi

Í þessum þætti höldum við umfjöllun okkar um fræði og boðskap Alfies Kohns áfram, út frá bókinni hans Unconditional Parenting. Með Guðrúnu Ingu Torfadóttur eru mættar þær Eva Rún Guðmundsdóttir, Guðrún Birna le Sage og Gyða Björg Sigurðardóttir. Í síðasta þætti stikluðum við á stóru um fyrri helming bókarinnar Unconditional Parenting. Við fórum yfir hegðunarvandamál sem leiða af skilyrtri ást foreldra og af hverju vinsælar uppeldisaðferðir láta börnum líða eins og þau séu samþykkt aðeins ef þau fara að kröfum foreldra sinna. Þá fjölluðum við um þegar börnum líður eins og foreldrar þeirra elski þau bara ef þeim vegnar vel í einhverju, t.d. skóla eða íþróttum. Í síðari helmingi bókarinnar fjallar Alfie síðan um hvernig við getum fært okkur frá þessum sem hann nefnir úreldu aðferðum og yfir í eitthvað allt annað og betra. Spurningin sem á okkur brennur eftir umfjöllun síðasta þáttar er: Af hverju gerum við þetta? Ef skilyrt og stjórnunartengt uppeldi er svona hrikalega slæmt eins og rannsóknir og reynsla margra segir okkur, af hverju erum við þá mörg okkar að detta inn í þess konar uppeldisaðferðir? Jafnvel mjög vel hugsandi fólk getur fest í ómarkvissri uppeldistaktík, því léleg agastjórnun er mjög auðveld og krefst lítils af okkur við að gera eitthvað við börnin okkar. Að gera eitthvað með börnunum er mun erfiðar. Og ef við þekkjum ekki seinni aðferðirnar þá höldum við áfram að gera hið fyrra því við vitum ekki hvað annað við ættum að gera. Þá fórum við yfir 12 grunngildi skilyrðislauss uppeldis að mati Alfies, sem að hans mati geta verið leiðarljós við að fara í þá hugrakka vegferð að horfast í augu við okkur sjálf sem foreldrar og gera örlítið betur á morgun en í dag og í gær.

25. Um skilyrðislaust uppeldi - Alfie Kohn IIHlustað

26. feb 2020