Þær Hrefna Hugosdóttir og Ragnhildur Bjarkadóttir frá Auðnast spjölluðu í þessum þætti við Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Hrefna er hjúkrunarfræðingur og Ragnhildur sálfræðingur. Báðar eru þær með framhaldsmenntun í fjölskyldumeðferð en nefna sig aðallega mæður. Saman stofnuðu þær fyrirtækið með miklar hugsjónir um að huga að öllum þáttum heilsunnar til að ná jafnvægi í einkalífi og starfi. Í spjallinu, sem fór um víðan völl með þessum tveimur snillingum, bar það helst á góma hvernig þær höndla hlutina þegar dagarnir eru erfiðir bæði gagnvart sjálfum sér og börnum sínum, hvernig foreldrar geta stuðlað að heilbrigðu sambandi sín á milli, hvernig sé að vinna saman í eigin rekstri og vera bestu vinkonur á sama tíma og vera því lítið samfélag út af fyrir sig, hvernig foreldrahlutverkið er fyrir þeim og um mikilvægi heildrænnar heilsu þegar kemur að foreldrahlutverkinu. Frábært spjall og við hlökkum til þegar Auðnast fer af stað með eigið hlaðvarp. Engin pressa samt!