Þrír meðlimir úr stjórn Fyrstu fimm mættu til Guðrúnar Ingu Torfadóttur að ræða um þau sjónarmið sem leiddu þau saman og liggja að baki áherslumálum hagsmunafélagsins.Þau Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Matthías Ólafsson og Ólafur Grétar Gunnarsson eru öll í stjórn Fyrstu fimm og eru, eins og aðrir í stjórninni, blanda af fagfólki og foreldrum með reynslu af virðingarríku uppeldi. Þau hafa öll ástríðu fyrir að skapa hér á landi fjölskylduvænna samfélag og að bæta verulega stöðu Íslands þegar kemur að forgangsröðun í þágu barna, að auka virðingu fyrir og slá helgi yfir okkar yngsta og viðkvæmasta hóp og foreldra þeirra frá getnaði og þar til grunnskólaárin taka við.Við heyrum af áherslumálum félagsins um aukið val fyrir fjölskyldur t.d. hvað varðar lækkað starfshlutfall, meðgönguorlof, lengingu fæðingarorlofs og umönnunarorlof fyrir maka eftir fæðingu barns, betri aðstæður í leikskólum og mikilvægi foreldrafræðslu svo eitthvað sé nefnt. Við heyrum einnig Ólaf Grétar og Matthías lýsa mikilvægi þess að feður taki jafnan þátt í umönnun barna sinna og hver þeirra persónuleg reynsla og þroski hefur verið af því. Á heimasíðunni fyrstufimm.is geturðu kynnt þér áherslumál þeirra nákvæmar og skrifað undir áköll félagsins og á Facebook-síðu Fyrstu fimm geturðu tekið þátt í umræðum hópsins.Við mælum með þessum þætti innilega fyrir alla sem hafa áhuga á málefninu.