Við vorum þrjár í þessum þætti hver á sínum stað á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð var það Ingibjörg Ólafsdóttir, sem kallar sig Hjálp ég er útbrennd á Instagram, en hún hefur tiltölulega nýlokið meðferð að sænskum hætti við kulnun og hefur viðað að sér miklum fróðleik um málefnið og miðlað því til annarra. Í Danmörku var það Stefanía Rut Hansdóttir, sem skrifaði lokaritgerð sína í sálfræði ásamt vinkonu sinni um kulnun mæðra í starfi og hefur skrifað hreinskilið um tilveru sína að búa ein með börn sín þrjú burtu frá fjölskyldu sinni. Og á Íslandi Guðrún Inga Torfadóttir sem stjórnaði upptökum og hefur í gegnum tíðina rambað á mörkum kulnunar oftar en einu sinni og þekkir sig í ýmsum einkennum hennar. Við ræddum hvernig það er að eiga þunga, erfiða daga, sitja með sjálfa sig í fanginu og reyna að gefa af sér til þeirra sem mest eiga það skilið að fá alla okkar bestu hliðar eins og við almennt ræðum um hér í þessu hlaðvarpi – en oft erum við hér að ræða um að vera frekar svona en hinsegin, vera virðingarrík, tryggja mikla útiveru, frjálsan leik, óskilyrta ást með öllu, burt með harðar ögunaraðferðir, útilokun, hunsun, niðrandi og skammandi tiltal, takmarka fyrirskipanir sem mest við megum en halda sterkum og öruggum mörkum þegar við á. Þetta eru allt háleit markmið sem krefjast mikils af okkur.Við höfum komið áður inn á þessi þemu öll í fjölmörgum þáttum, svo sem í þætti 2 um gleði í uppeldi, 10. þætti um triggera með Kristínu Maríellu, 11. þætti með Bjarti Guðmunds um að vera í topp tilfinningalegu formi, 22. þætti um RIE fyrir fullorðna með stelpunum í Hraust þjálfun, og svo komið inn á þetta víða í öðrum þáttum.