Í þessum þætti er farið yfir bókina The Objectivist Parenting eftir Roslyn Ross í fjarbókaklúbbi. Sem fyrr var tæpt á helstu atriðum bókarinnar og svo fjörlegar umræður inni á milli. Við vitum aldrei hverjir mæta á þessa fjarbókaklúbba en það sýnir sig að þegar stjórnartaumunum er sleppt kemur eitthvað frábært upp úr dúrnum. Þessi bók er knöpp og fer ítarlega yfir allt sem Roslyn og aðrir telja vera að atferlisstefnu (e. behaviorism) og hvað megi þá gera í staðinn. Svo skemmtilega vildi til að á meðal þátttakenda var PMTO-meðferðaraðili mættur og því hægt að vega þetta og meta saman, þá stefnu sem enn er kennd í nokkrum sveitarfélögum landsins, bæði í skólum og af heilsugæslum og sem talsmenn virðingarríks uppeldis myndu telja vera afsprengi atferlisstefnu þótt margt geti líka talist vera virðingarríkt í henni. Þarf endilega að kenna foreldrum og kennurum að umbuna börnum fyrir að komast hraðar út um dyrnar eða í háttinn? Er skólakerfið okkar með nægilega mikið svigrúm til að ýta undir sjálfstæði og val barna? Þetta og margt fleira var á meðal þess sem rætt var á þessum frábæra bókaklúbbi. Þátttakendur í umræðum voru Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Gyða Björg Sigurðardóttir, Ólafía Helga Jónasdóttir, Perla Hafþórsdóttir og Sólveig Rós. Þættinum stýrði Guðrún Inga Torfadóttir.