Í þessum þætti svona skömmu fyrir jól heimsækjum við það efni sem við flest viljum komast hjá yfirleitt að ræða eða verða fyrir: sorgina. Til Guðrúnar Ingu Torfadóttur komu þær Aldís Rut Gísladóttir prestur, jógakennari og þriggja barna móðir og Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona, íþróttakona og tveggja barna móðir. Þær hafa báðar ástríðu fyrir virðingarríku uppeldi og deildu með Guðrúnu Ingu visku sinni og reynslu hvað viðkemur sorginni, sorgarúrvinnslu og viðbrögðum. Kristín Sif sagði okkur Aldísi frá reynslu sinni síðasta árið eftir að hafa misst manninn sinn og barnsföður úr sjálfsvígi og komið að honum sjálf á heimili þeirra. Hvernig fyrstu dagarnir voru og svo áfram. Sjálf er hún orðin sérfræðingur í sorgarúrvinnslu eftir að hafa nýtt flest þau úrræði og haldreipi sem í boði voru og stutt einnig við börn sín við missinn með raunsæi og samkennd. Ljóst er að því verkefni er hvergi nærri lokið. Aldís fræddi okkur um sálgæslufræðin og áhrif sorgar á börn sem fullorðna sem og eigin upplifun af sorg við umskipti í lífinu þegar fjölskyldumynstrið breytist. Guðrún Inga tókst einnig ung á við áföll, að missa bróður úr sjálfsvígi og móður úr Alzheimer og lýsir því hvernig sorgin býr enn í hjartanu og hvernig unnt er samt að upplifa gleði og þakklæti og ala börnin upp við að þekkja hina látnu og umgangast dauðann.Okkur er kennt hvernig við öflum okkur hluta, en ekki hvað við eigum að gera þegar við töpum þeim. Foreldrar, vinir og jafnvel samfélagið hvetja okkur til að breiða yfir sorgina frekar en að takast á við hana og fara í gegnum hana. „Ekki láta þér líða illa. Bættu fyrir tapið. Vertu sterkur fyrir aðra. Hafðu nóg að gera.“ Þetta eru dæmi um sagðar og ósagðar uppástungur sem okkur eru gefnar, frá unga aldri, til að takast á við sorg eða harm. Þær krefjast þess af okkur að hunsa heiðarlegar tilfinningar okkar, halda þeim inni, grafa þær niður. Þær eru sagðar af góðum hug, enginn vill sjá okkur líða illa. En þessar leiðbeiningar eru aðeins til þess fallnar að aftra okkur við að tjá sannar tilfinningar okkar og stýra okkur í þá átt að takast ekki á við sorg og missi. Bældar tilfinningar sem ekki hefur verið unnið úr munu bæla getu okkar til að upplifa lífsgleði og gera lífsorkuna gegndræpa. Við gætum leitað í óheilbrigðar leiðir til að takast á við missi og vonbrigði og haldið í óheilbrigðar venjur sem ógna hamingju okkar og heilbrigði. Þetta er ástæðan fyrir að það er lífsnauðsynlegt að læra hvernig við tökumst á við missi snemma á lífsleiðinni og í einföldum tilvikum. Við getum gert betur fyrir okkur og fyrir börnin okkar.
21. Um sorgarviðbrögð með Kristínu Sif og Aldísi Rut