Við hefjum þáttinn á örlitlu innskoti um stöðuna í dag frá Guðrúnu Ingu Torfadóttur og um framhaldið næstu vikur en við munum engan bilbug láta á okkur finna ef við getum einhverju um það ráðið og höldum áfram dagskrá okkar.Aðalheiður Sigurðardóttir, fyrirlesari og samskiptaráðgjafi, er móðir stúlku sem fékk einhverfugreiningu átta ára gömul. Hún kom til Guðrúnar Birnu le Sage og Kristínar Bjargar Viggósdóttur og sagði þeim frá reynslu sinni sem móðir barns á einhverfurófi. Hún talar um áfallið sem greiningin er fyrir foreldri og hið langa ferðalag að finna réttu úrræðin fyrir stúlkuna sína og koma á samvinnu við skólayfirvöld. Aðalheiður lýsir því hvernig hún hefur tekið sér hlutverk túlks fyrir dóttur hennar við skólann hennar og hvernig þeirra góða samvinna varð til þess að dóttir hennar öðlaðist betra líf. Ef líðanin er ekki góð verði lærdómurinn enginn. Þegar dóttir hennar tjái mótþróa þurfi að byrja að rannsaka og setja á sig stækkunar- og forvitnisgleraugun – því þar sé eitthvað sem stoppi hana, því hún vilji alltaf standa sig vel.Aðalheiður lýsir því líka hvernig hún getur unnið með barninu sínu skref fyrir skref, í gegnum það sem hún nefnir lykla til að hjálpa dóttur sinni að gera nýja hluti, sem Aðalheiður vissi að hún myndi hafa gaman af, eða sé mikilvægt fyrir hana að þjálfa upp. Þá geti hún virt þegar dóttir hennar segir „NEI“ eða sýnir mótþróa og fundið svo smávægilegar leiðir til að feta sig með henni í átt að nýju verkefni. Aðalheiður talar um að hún hafi lært að undrast yfir viðbrögðum dóttur sinnar, í stað þess að dæma eða stimpla tjáningu hennar og hegðun.Við mælum með þessu mannbætandi viðtali. Greiningar eru að mati Aðalheiðar ekki stimplar – heldur leiðarvísar. Í framtíðinni þar sem við höfum náð að búa til hið kærleiksríka samfélag þar sem allir fá að vera eins og þeir eru, þá þurfi ekki greiningar. En á meðan því marki er ekki náð þurfum við greiningar sem leiðarvísa fyrir umönnunaraðila og skóla.Boðskapur Aðalheiðar á svo sannarlega erindi til allra foreldra, ekki einungis foreldra barna á einhverfurófi. Það er svo margt sem við getum lært af hennar reynslu, sem hún dregur ekki síst frá reynsluheimi einstaklinga á einhverfurófi.
27. Um virðingarríkt uppeldi og einhverfu með Aðalheiði Sigurðardóttur