:00
Í loftinu:
:00
Í spilun
Næst

Þetta gerir Þórólfur þegar útlitið er svart: „Þetta er búin að vera þung vika“

Gefumst ekki upp!

Þetta gerir Þórólfur þegar útlitið er svart: „Þetta er búin að vera þung vika“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir passar sig á að minna sig á að „gefast ekki upp og halda áfram“ þrátt fyrir að útlitið verði svart.Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þetta er búin að vera þung vika, þær eru reyndar margar þungar. Þetta er búið að vera dálítið þungt,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í helgarútgáfunni á K100 en þar fékk hann að velja óskalag í dagskrárliðnum „Óskalag úr eldlínunni“.

„Gefast ekki upp og halda áfram“

Valdi hann lag sem honum þótti sérstaklega viðeigandi á þessari stundu en það er lagið Keep on Running með Spencer Davis Group. 

„Gamla góða sem ég hef nú tekið sjálfur á bassann og sungið,“ sagði Þórólfur. „Það er táknrænt og á við um mig og alla sem eru að standa í þessu. Þetta að gefast ekki upp og halda áfram,“ sagði hann.  

„Ég verð að fara eftir því lagi og hugsa oft um það þegar mér finnst þetta orðið ansi svart. Þá raula ég þetta,“ viðurkenndi Þórólfur. 

Þórólfur tók undir það að skoðanir fólks á sóttvarnarráðstöfunum sem settar voru á fyrir helgi væru afar margar og mismunandi.

Sumar skoðanir ómálefnalegar og illkvittnar 

„Við erum Íslendingar. Við erum náttúrulega fólk sem hefur sterkar skoðanir á nánast öllu. Og þær eru mismunandi og mismunandi málefnalegar. Sumar mjög góðar. Það er gott að heyra alls konar vangaveltur. Eins og ég hef margoft sagt: Maður hefur gott af því að heyra alls konar skoðanir og velta þeim fyrir sér í ljósi eigin skoðana og þá kemst maður að niðurstöðu.

Annað hvort styrkist maður í sinni eigin niðurstöðu eða maður segir: Það er nú svolítið til í þessu. Við skulum aðeins breyta þessu.

En svo koma líka mjög ómálefnalegar og illkvittnar og leiðinlegar skoðanir sem eiga eiginlega bara hvergi heima,“ sagði sóttvarnalæknir.

„Minn tími mun koma“

Þá ræddi Þórólfur um söknuð hans á því að spila tónlist og syngja sjálfur en hann segist hafa getað gert allt of lítið af því síðan Covid byrjaði.

„Ég er svona hálf ryðgaður. Þannig að ég þarf eiginlega að fara að byrja upp á nýtt aftur. Því maður er svo fljótur að ryðga. Ég vona nú að ég fari að sjá fyrir endann á þessu. En ég er búinn að segja það svo lengi en minn tími mun koma eins og sagt er,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt spjallið við Þórólf í spilaranum hér að neðan.

 

Hér má hlusta á lagið Keep on Running með Spencer Davis Group sem Þórólfur raular alla jafna á erfiðum tímum.

 

 

Mbl.is