:00
Í loftinu:
:00
Í spilun
Næst

„Hélt að þetta væri „scam““ – Sólkatla óvænt með pólskan aðdáendahóp

Sólkatla var skiljanlega frekar tortryggin þegar hún fékk dularfull skilaboð frá Póllandi.

„Hélt að þetta væri „scam““ – Sólkatla óvænt með pólskan aðdáendahóp
Sólkatla er strax farin að vekja athygli utanlands.Ljósmynd/Bolli

Söng- og leikkonan Sólkatla Ólafsdóttir gaf á dögunum út sitt fyrsta sólólag, Love No More, og þótt um frumraun hennar sé að ræða sem tónlistarkona, hefur lagið þegar vakið athygli erlendis. 

Sólkatla mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 í dag og ræddi við Bolla Má og Evu Ruzu um lagið og viðtökurnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hún gefur út eigið tónlistarefni – og viðbrögðin hafa verið afar jákvæð.

Ljósmynd/Spotify

„Ég hef aldrei tekið af skarið að gefa út eigið efni,“ sagði Sólkatla sem þó hefur víðtæka reynslu af tónlistarheiminum, til að mynda sem bakraddarsöngkona. „En ég er ótrúlega kát með það og spennt að gefa út mína eigin tónlist.“

Hún viðurkennir aðspurð að hún hafi ekki beint fundið fyrir stressi við að gefa út lagið, heldur sé þetta meira spurning um að treysta flæðinu.

„Maður bara kastar einhverju fram og fólk tekur því annað hvort eða. Maður bara kýlir á það. Maður hefur engu að tapa,“ sagði hún.

Reyndir tónlistarmenn með í för

Lagið Love No More er samið af Finnbirni Finnbjarnarsyni, en með í hópnum eru m.a. þeir Halldór Gunnar Pálsson – „fjallabróðir“ – sem tók upp og mixaði lagið. Allir hafa þeir margra ára reynslu úr íslensku tónlistarlífi. Sólkatla segir lagið þó eiga langa sögu, en það var samið fyrir nokkrum árum. Ýmislegt kom þó upp sem frestaði upptökum.

„Það er svolítið þannig með lífið. Stundum er þetta bara „time and place“. Maður er ekki alltaf tilbúin, en heimurinn er bara þannig að stundum kemur allt saman og það verður oft stærra og meira út úr því.“

Hér má heyra lagið „Love No More“ á Spotify. 

Skilaboð frá Póllandi

Skömmu eftir útgáfu lagsins barst Sólkötlu óvænt skilaboð sem hún átti erfitt með að trúa – þau virtust allt of góð til að vera sönn, að hennar sögn.

„Ég fékk skilaboð í vikunni sem ég hélt að væri „scam“. Þetta er of gott til að vera satt. Skilaboð sem var búið að þýða yfir á íslensku. Ég hugsaði: „Nei, nú er verið að fara hakka mig,“ sagði hún hlæjandi.

En skilaboðin voru sannarlega raunveruleg – frá pólskum útvarpsmanni sem hafði verið að spila lagið hennar í útvarpi ytra.

„Hann sagði mér að ég ætti þegar pólskan aðdáendahóp,“ sagði Sólkatla, en maðurinn hafði víst rekist á lagið fyrir tilviljun á Spotify.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið.

 

Sólkatla ræddi nýju tónlistina, mátt internetsins og alþjóðlegar viðtökur í morgunþættinum Ísland vaknar. Hægt er að hlusta á spjallið við hana í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

 

 

Mbl.is