mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

„Vinnum þetta saman“

Að vanda lýkur Víðir fundinum með hvatningarorðum. „Verum góð við hvort annað. Vinnum þetta saman,“ segir hann. „Njótið rafrænnar eða raunverulegrar návistar við ykkar nánustu.“

Þá er fundurinn allur í dag.

Biðlistar að lengjast

„Okkar biðlistar eru að lengjast. Það er engin spurning,“ segir Páll. Segir hann það verða ærið verkefni, þegar um hægist, að vinna á biðlistum í aðgerðir sem hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar.

Fátítt að fólk undir þrítugu veikist alvarlega

„Við höfum alltaf sagt að fólk á öllum aldri getur fengið í sig veiruna, en þeim eldri vegnar verr, veikjast meira,“ segir Alma. Spurð um veikindi ungs fólks segir Alma að það sé mjög fátítt að fólk undir þrítugu verði alvarlega veikt.

Bólusetning virðist ekki gera gagn

Gera bólusetningar gegn lungabólgu gagn gegn kórónuveirunni?, er Sigríður spurð. Hún kveður nei við. Segist hún ekki ráðleggja þeim sem eru með undirliggjandi lungnavandamál að gera sér ferð á heilsugæslustöð til að fá slíka sprautu.

Nýtt líkan eftir páska

Strax eftir páska má gera ráð fyrir nýju spálíkani frá Háskóla Íslands, segir Alma. Líkanið hefur verið stöðugt upp á síðkastið og telur Alma að fólk viti að talsverðu leyti við hverju megi búast.

Slopparnir betri en búist var við

Nýju öndunarvélarnar virðast allar virka vel, segir Páll. Ekki er komin reynsla á hlífðarbúnaðinn sem kom í gærkvöld. Slopparnir virðast vera í meiri gæðum en búist var við en grímurnar virðast því miður ekki eins góðar og vonast var til. Að langmestu leyti sé fólk mjög ánægt með nýja búnaðinn.

Læra þarf af atvikinu í Bergi

Alma D. Möller landlæknir segir að mestu gildi að vera á varðbergi og læra af atvikinu sem átti sér stað á hjúkrunarheimilinu Bergi þar sem kona úr bakvarðasveit var handtekin. Spurð hvort endurmeta þurfi verkferla vegna atviksins segir hún að þrjár bakvarðasveitir séu til staðar á landinu.
Meira »

Skuli ekki sýna af sér áhættusama hegðun

Er í lagi að vera að ganga upp á fjöll?, er Víðir spurður. Segir hann að þau tilmæli hafi verið gefin að halda sig eins mikið og hægt er heima, en einnig eigi fólk ekki að sýna af sér „áhættuhegðun“, til að taka ekki „sénsa“. Fólk verður að meta sjálft hvaða hegðun er áhættusöm fyrir það.

Ekki búið að taka ákvörðun

Aðspurð segir Alma að það sé til skoðunar hvernig ferðatakmarkanir verða afnumdar, segir Alma. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að takmarkanir gildi þar til bóluefni er til.

Þrjár leiðir í bakvarðasveitina

Spurt er um konuna sem var handtekin í Bolungarvík. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig konan komst í bakvarðasveit en í raun eru þrjár mismunandi leiðir í bakvarðasveit. Rannsóknin er á frumstigi.

Finna fyrir þakklæti og umburðarlyndi

„Heilsugæslan vill þakka skjólstæðingum fyrir þolinmæði og skilning,“ segir Sigríður. Bætir hún við að starfsólk hafi starfað undir miklu álagi en það finni fyrir miklu þakklæti og umburðarlyndi í sinn garð.

Ekki hika við að hafa samband

Eftir helgi verða auðvitað allar heilsugæslustöðvar opnar. „Við hvetjum fólk til að hika ekki við að hafa samband,“ segir Sigríður.

Bráðaerindum er alltaf sinnt án tímabókunar.

Heimahjúkrun um páskana

Heimahjúkrun er starfrækt um páskana eins og aðra frídaga.

Heilsugæslustöðvarnar sjálfar eru lokaðar um páskana og starfsfólk komið í kærkomið páskafrí. Margir eru þó að vinna ýmsa aukavinnu.

Sýnataka alla helgina

Sigríður segir að netspjall Heilsuveru sé opið milli 8 á morgnana og 10 á kvöldin, alla daga yfir páskana. Læknavaktin í Austurveri er opin alla páskahelgina.

Vitjunarbílum hefur verið fjölgað hjá læknavaktinni.

Sýnataka fer fram alla helgina hjá nokkrum heilsugæslustöðvum. sú sýnataka er sem fyrr einungis fyrir þá sem eru grunaðir um að vera smitaðir af kórónuveirunni.

Hugurinn hjá aðstandendum þess látna

„Hugur okkar er hjá aðstandendum þess látna,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á blaðamannfundi og átti þar við sjúklinginn sem lést á spítalanum á síðasta sólarhring.
Meira »