mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Segjum þetta gott

Við látum hér staðar numið af beinu vaktinni. Á mbl.is verður þó áfram náið fylgst með því sem við kemur kvennaverkfallinu. Takk fyrir samfylgdina í dag.

Útgáfuhóf fært vegna afstöðu Eymundsson

Í dag klukkan fjögur átti að fara fram útgáfuhóf í verslun Eymundsson í Austurstræti vegna bókarinnar Ég þori! Ég get! Ég vil!. Höfundur bókarinnar, Linda Ólafsdóttir fékk það staðfest fyrr í dag að verslunin hefur neitað að greiða þeim laun sem fella niður störf í dag.
Meira »

„Ekki minni fjöldi en á menningarnótt, en mun þéttara“

Gríðarlega fjölmennt var í miðbæ Reykjavíkur í dag þar sem baráttufundur vegna kvennaverkfalls fór fram. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að ekki hafi verið minna í miðbænum í heild en er til dæmis á menningarnótt. Þó verði að hafa í huga að mannfjöldinn hafi verið mun þéttar saman kominn í dag en almennt þegar stærri hátíðir eru í bænum.
Meira »

Fjölsóttur fundur á Ráðhústorginu


Fjölsóttur samstöðufundur var á Ráðhústorginu á Akureyri í morgun þar sem  hljómsveitin Skandall, Kvennakór Akureyrar, Drottningarnar og Villi Vandræðaskáld stigu á stokk og Ásta Flosadóttir flutti ávarp.  Beint steymi var síðan á torginu frá útifundinum við Arnarhól í Reykjavík.

Ljósmyndir/Margrét Þóra Þórsdóttir





Geta saman fært fjöll

„Þótt baráttan virðist stundum erfið og það geti reynst auðveldara fyrir okkur í daglegu amstri að horfa fram hjá misrétti sem við búum við eða sjáum í kringum okkur þá getum við saman fært fjöll,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Meira »

Ísfirskar konur kröfðust réttlætis

Vestfirskar konur komu saman á útifundum á Ísafirði og Drangsnesi í dag.

Á Ísafirði var gengið að Edinborgarhúsinu í miðbænum þar sem haldinn var fundur með ræðuhöldum og fjöldasöng.

Þjónusta Sveitarfélagsins Ísafjarðar er töluvert skert í dag vegna kvennaverkfallsins. Allir  skólar, leikskólar og dægradvöl eru  lokuð og sundlaug og íþróttahús á Flateyri einnig einnig svo  nokkuð sé nefnt.

Ljósmyndir/Halldór Sveinbjörnsson




Pínu íslenskt

„Höfum fengið mikið stærri sess við borðið“

„Það þýðir ekki að vinna að jafnrétti bara eins hóps. Við verðum að vinna að því þvert á hópa svo að við fáum jafnrétti allra en ekki tveggja hópa.“ Þetta segir Mars Proppé, stærðfræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík.
Meira »

Baráttugleði og bjór á meðan aðrir halda heim á leið

Baráttufundinum er lokið. Á meðan sumir halda heim eru einhverjir viðburðir skipulagðir eftir fundinn, meðal annars bjóða femínísk fjármál til baráttugleði á Loft hosteli þar sem orðið verður laust og konur og kvár geta látið að sér kveða yfir veigum.

Voru Hverfisgata og Ingólfsstræti nokkuð þétt skipaðar fólki þegar blaðamaður mbl.is hélt af fundinum og má búast við talsverðri umferð frá miðbænum.

Eyjakonur fylgjast með útifundinum

Um 150 konur eru á Loftinu í Höllinni í Vestmannaeyjum til að fylgjast með sjónvarpsútsendingu frá útifundi við Arnarhól í Reykjavík.

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Hvað er svona merkilegt við það?

Söngkonan Ragga Gísla flytur hið klassíska lag Grýlanna Ekkert mál, en Ragga kynnti það sem spurningarlagið þegar hún hóf flutninginn.

Eins og þekkt er fjallar lagið um hvað sé svona merkilegt við ýmiss hlutverk sem oft hafa þótt karllægari. Meðal annars að bora í vegg, keyra skurðgröfu o.fl.

Hvort sem spurningin er svo Að vinn' á lyftara? Að vera karlmaður?  eða Að ver' á sundskýlu? þá er svar Röggu alltaf „Ekkert mál.“

Næsta lag er svo önnur klassík með Grýlunum, Sísí.

Það er ljóst að Ragga nær svo sannarlega að keyra mannskapinn í stuð með þessum flutningi, enda er Arnarhóll allur hoppandi.

Kvennamál rædd á karlaþingi

Kvennaverkfallið setti svip sinn á fund Alþingis sem settur var nú um eftirmiðdaginn. Sökum verkfallsins féllu niður liðir tvö til níu og var því einungis óundirbúinn fyrirspurnartími á dagskrá. Engin þingkona tók til máls, en fyrirspurnir þingmanna til ráðherra einkenndust af deginum í dag.
Meira »

Við krefjumst aðgerða og breytinga! Núna!

Tvær af forsvarskonum kvennaverkfallsins lásu upp ályktun baráttufundarins og hlaut hún dynjandi lófatak viðstaddra.

Ályktunin er eftirfarandi:

Við krefjumst leiðréttingar á vanmati „svokallaðra“ kvennastarfa!

Að atvinnurekendur hætti að veita sér afslátt á launum kvenna og kvára!

Við krefjumst sértækra aðgerða til þess að leiðrétta kjör þeirra kvenna og kvára sem lægstar tekjur hafa, því engin á að þurfa að lifa við fátækt!

Við krefjumst þess að launamisrétti og mismunun verði útrýmt!

Að konur og kvár geti lifað af launum sínum og fái tækifæri til að þróast í starfi til jafns við karla!

Að fatlaðar konur og kvár hafi tækifæri til atvinnuþátttöku til að geta bætt kjör sín!

Að menntun og hæfni kvenna af erlendum uppruna sé metin að verðleikum!

Að konum og kvárum verði ekki lengur refsað fjárhagslega fyrir þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þau axla yfir ævina og gjalda fyrir þegar á lífeyrisaldur er komið.

Að gert verði samfélagslegt átak til að útrýma fordómum gegn fólki með fötlun, hinsegin fólki, fólki af erlendum uppruna og öðrum jaðarhópum.

Við krefjumst þess að karlar taki ábyrgð á við konur og kvár!

Taki ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og við umönnun fjölskyldumeðlima!

Taki ábyrgð á ólaunaðri þriðju vaktinni!

Við krefjumst þess að konur og kvár séu ekki í fjárhagslegum fjötrum ofbeldismanna!

Að konur og kvár fái stuðning við að byggja upp fjárhagslegt sjálfstæði eftir að hafa lifað af kynbundið fjárhagslegt ofbeldi!

Við krefjumst réttlætis og réttarbóta fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis!

Að ofbeldismenn sæti ábyrgð og kynfrelsi sé virt!

Að konur og kvár njóti öryggis og frelsi frá ofbeldi og áreitni í vinnunni, heima og í almannarými!

Að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt!

Við krefjumst þess að stjórnmálin geri kröfur Kvennaverkfalls að forgangsmáli!

Strax!

Við krefjumst aðgerða og breytinga!

Núna!

Mannhafið kallar til baka

Þegar flutt var verkið Jafnréttisparadísin Ísland og spurt var „ Kallarðu þetta jafnrétti? “ svaraði mannhafið í hvert skipti með skýru nei-i.



„Við viljum sjá breytingar“