Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á frettir@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is
2.3.2020
Blaðamannafundinum er lokið. Nánari fréttir verða fluttar af því sem þar kom fram á mbl.is innan skamms og viðtal við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni er væntanlegt innan stundar.
2.3.2020
Fjölmiðlamaður á staðnum spurði landlækni hvort hótelstarfsfólk gæti neitað því að sinna starfi sínu eftir að hótelinu hefði verið breytt í sóttkví. Landlæknir var ekki alveg viss, en spurði samstarfskonu sína í salnum sem svaraði um hæl: „Að sjálfsögðu“.
Ekki hefur þó staðið á sjálfboðaliðum frá Rauða krossinum til þess að starfa í sóttvarnahúsinu sem búið að er að setja upp á Rauðarárstíg.
2.3.2020
2.3.2020
Lögregluumdæmin um allt land hafa fengið þá ábyrgð að tryggja húsnæði sem mætti nota undir sóttkví. Þetta er í vinnslu og mörg umdæmi hafa þegar tryggt sér húsnæði, segir Víðir.
2.3.2020
Einn fjölmiðlamanna á fundinum spurði hvort fólk ætti að íhuga að afbóka utanlandsferðir sem hafa verið bókaðar í vor eða sumar. Víðir Reynisson sagði að ekkert svar væri til við því, hann sjálfur ætti bókaða ferð til Portúgal í apríl og ætlaði að bíða og sjá hvernig staðan yrði.
2.3.2020
Líðan þeirra þriggja sem greinst hafa með smit hér á landi er góð, að sögn sóttvarnalæknis. Einn er í einangrun á Landspítala en hin tvö eru heima hjá sér.
2.3.2020
Erlendir ferðamenn sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna hingað til lands, einungis íslenskir ríkisborgarar og aðrir sem eiga heimili hér á landi. Þórólfur Guðnason sagði að þetta skýrðist af því að álitið væri að Íslendingar væru áhrifaríkari smitberar en ferðamenn, þar sem ferðamenn haldi sig yfirleitt saman.
Auk þess væri þetta mjög stór hópur, erfitt væri að setja allt þetta fólk í sóttkví og líka erfitt að fá áreiðanlegar upplýsingar frá fólkinu.
2.3.2020
Flugþjónar Icelandair sem voru í flugi með smituðum einstaklingi frá Veróna á Ítalíu fóru í sóttkví eftir heimkomuna, segir Víðir Reynisson. Almannavarnadeild hefur fundað með flugfélaginu til þess að skoða hvaða ráðstafanir flugfélagið getur gert til þess að minnka áhættuna á smiti fyrir sitt starfsfólk.
2.3.2020
Þórður biðlaði til stjórnenda stórra fyrirtækja um að vanda þær upplýsingar sem starfsfólki eru gefnar um veiruna. Dæmi væru um að skilaboð til starfsmanna hefðu valdið stressi hjá starfsfólki, sem hefði í kjölfarið hringt í 1700 og aukið enn á álagið á símalínum þar.
2.3.2020
Þórður frá Læknavaktinni sagði að mikið álag hefði verið á þeim sem svara í síma 1700, ekki bara vegna kórónuveirunnar heldur líka vegna inflúensu. Hann biðlar til fólks um að hugsa áður en það hringir í 1700 og velta því fyrir sér hvort erindi þeirra geti beðið.
„En auðvitað eiga þeir að ganga fyrir og ekki að hika við að hringja eða hafa samband sem eru virkilega í neyð eða veikir,“ sagði Þórður.
2.3.2020
Alma landlæknir sagði að nú væri biðlað til heilbrigðisstarfsmanna að fara ekki í ferðalög, þar til betur lægi fyrir hvernig útbreiðsla kórónuveirunnar yrði.
2.3.2020
Bæði sóttvarnalæknir og landlæknir segja fjölgun tilvika í Evrópu áhyggjuefni. Þau taka þó bæði fram að 80% þeirra sem sýkist fái lítil einkenni. Allir geta þó veikst, segir Alma landlæknir.
2.3.2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði 130 sýni hafa verið greind hér á landi. Þrjú hafa verið jákvæð og eru þeir einstaklingar allir í einangrun á Landspítala.
2.3.2020
Viðbrögð okkar hafa verið að reyna að greina sýkingarnar snemma, beita einangrun á þá sem eru með staðfest smit og sóttkví á þá sem mögulega hafa verið útsettir fyrir smiti. Við viljum grípa til mjög harðra aðgerða í byrjun til að reyna að stoppa útbreiðsluna, sagði Þórólfur sóttvarnalæknir, en um 260 manns eru í sóttkví núna á landi.
Hann þakkar, eins og Víðir, fólkinu í sóttkví fyrir að fara eftir leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út.
2.3.2020