Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á frettir@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Fundinum er lokið

Blaðamannafundi almannavarna þennan daginn er lokið.

Þörf á fjarlægð á milli afgreiðslukassa

Víðir segir mikilvægt að fólk virði tveggja metra fjarlægðina og að ekki fleiri en 20 séu í sama rými. Einnig segir hann mikilvægt að verslanir séu ekki með of marga afgreiðslukassa í gangi. Ekki megi vera 2 metrar á milli þeirra.

Verðum að vera áfram með ljóta hárgreiðslu

Fólk sem er í sóttkví á ekki að fara í verslanir og vera innan um annað fólk. Alltof mikið af tilkynningum hafa borist um að fólk í sóttkví fari í verslanir, segir Víðir.

Einnig hafa komið ábendingar um að verið sé að flytja hárgreiðslustofur í heimahús. „“Kommon“ það er ekki að ástæðulausu sem við settum þetta bann á,“ segir hann og bætir við: „Við verðum bara að vera með ljóta hárgreiðslu næstu vikurnar.“

Flutt í sérstökum hylkjum á spítalann

Fólk sem er alvarlega veikt á landsbyggðinni er flutt í sérstökum hylkjum á Landspítalann, til að verjast kórónusmiti. Þetta sagði Alma Möller landlæknir.

Fyrrverandi löggur í bakvarðasveit

Bakvarðasveit lögreglunnar verður samsett af fyrrverandi lögreglumönnum sem eru að starfa annars staðar í kerfinu. Margir hafa boðið fram krafta sína, að sögn Sigríðar.

Falskt öryggi fyrir heilbrigða að nota grímu

Það er falskt öryggi að heilbrigður einstaklingur gangi með andlitsgrímu til að verjast veirunni. Sóttvarnarlæknir hefur þó ekki mælt gegn því.

Skipta þarf mjög oft um grímu um leið og hún blotnar. Fólk gæti mengast bara við að taka hana af sér. Ýmislegt segir að það geti verið falskt öryggi og jafnvel aukið á sýkingarhættu, að sögn Þórólfs.

Vottorð ekki komið til tals

Ekki hefur komið til tals að gefa út sérstök vottorð um að fólk hafi náð sér af kórónuveirunni, að sögn Þórólfs.

Vonandi búið í maí

Þórólfur segir þeirra sýn vera þá að faraldurinn verði búinn að mestu leyti í maí. Þegar þessi bylgja smita sem núna er uppi gengur yfir er spurningin hversu stór hluti af þjóðinni hefur raunverulega sýkst. Það er önnur rannsókn sem verið er að huga að, að sögn Þórarins.

Þá verður betur hægt að svara því hver hættan er á því að önnur bylgja smita geti komið.

Allt að hálf milljón í sekt

Viðmiðunarfjárhæðir sekta ríkislögreglustjóra verða 50 til 500 þúsund króna varðandi þá sem brjóta lög í tengslum við boð og bönn vegna veirunnar.

„Það eru líf í húfi. Það liggur mikið við að reglur sóttvarnarlæknis séu virtar,“ segir Sigríður.

Bakvarðasveit lögreglunnar stofnuð

Sigríður Björk þakkar öllum starfsmönnum lögreglu og nefnir sérstaklega félaga á Norðurlandi og í Vestmannaeyjum vegna margra vandamála þar í tengslum við veiruna. Bakvarðasveit lögreglunnar verður sett af stað í dag. Hún vonar að ekki verði þörf á henni en segir best að vera við öllu búin.

Heimilisofbeldi eykst við aðstæður á borð við þær sem eru núna uppi og bendir ún á að fólk leiti til viðeigandi aðila vegna þess. Lögreglan bregst við stöðunni varðandi heimilisofbeldi með framleiðslu á forvarnar- og fræðslumyndböndum sem verða birt á næstunni.

Alma fór með limru

Alma D. Möller landlæknir brá á leik og fór með limru. Landspítalinn í Fossvogi verður notaður í ríkari mæli til að meðhöndla sjúklinga með veiruna. Orkuhúsið við Suðurlandsbraut og Klíníkin standa einnig til boða, ásamt sjúkrahúsinu á Akureyri, að sögn Ölmu.

Þrjú prósent þjóðarinnar í sóttkví

Rúmlega 13 þúsund sýni hafa verið tekin. Rúmlega 4% af íslensku þjóðinni hafa verið prófuð, að sögn Þórólfs. Um 3% af þjóðinni eru í sóttkví.

97 manns hafa jafnað sig af veirunni.

Samkomubannið mun standa lengur

Landsmenn mega búast við því að samkomubannið muni standa eitthvað lengur, að sögn Þórólfs.

„Við erum tæplega hálfnuð í þessu langhlaupi. Faraldurinn er ennþá í vexti,“ sagði hann en tók fram að hann væri ekki í hröðum vexti.

18 liggja á Landspítalanum

18 liggja inni á Landspítalanum með kórónuveiruna, þar af sex á gjörgæslu og þessir sex eru í öndunarvél.

392 sýni hafa verið tekin á veirufræðudeild Landspítalans og eru 21% þeirra jákvæð.

Af 606 sýnum hjá Íslenskri erfðagreiningu var 1 % jákvætt.