Kryddaðar gellur í uppáhaldi

Eldhúsið hjá Eyþór og fjölskyldu er opið og skemmtilegt með …
Eldhúsið hjá Eyþór og fjölskyldu er opið og skemmtilegt með fallegum marmara í stað flísa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyþór Arnalds er önnum kafinn þessa dagana en hann mun leiða lista Sjálf­stæðismanna í borg­inni í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Eyþór er smekkmaður og ekki síst á mat og segist vera mikill matmaður. „Mér finnst fátt betra en að borða góðan mat. Við erum heppin á búa á Íslandi með frábært hráefni og matarmenningin hefur batnað mikið á síðustu áratugum. Þegar ég var ungur var okkur sagt að borða sem mest af brauðmeti. Fita var talin óholl. Sem betur fer veit fólk betur í dag og heilbrigður matur er víðar en áður. Mér finnst mikilvægt að borða hollan mat sem lætur mér líða vel. Það gefur mér jafna orku yfir daginn.“

Hollur morgunverður sem inniheldur, prótein, fitu og kolvetni. Eyþór segir …
Hollur morgunverður sem inniheldur, prótein, fitu og kolvetni. Eyþór segir þessa samsetningu standa vel með sér fram eftir degi. Eggert Jóhannesson

Eyþór segist oft elda heima fyrir fjölskyldu og vini. „Að borða og spjalla er hluti af lífinu og ég vil halda fast í þá menningu. Nútíminn er erilsamur en ekkert kemur í staðinn fyrir máltíð í góðum félagsskap.“ Eyþór viðurkennir þó að hann hafi klúðrað máltíð og hans mestu mistök í eldhúsinu hafi verið þegar hann ofsteikti hreindýrasteik.

Fiskur er í miklu uppáhaldi hjá Eyþóri en einn af hans uppáhaldsveitingastöðum er Messinn. Spurður um uppáhaldsmat svarar hann: „Gellur í kryddi koma upp í hugann, en annars er svo margt sem mér finnst gott.“

Eyþór byrjar alla morgna á að hella upp á rótsterkt kaffi og borðar með því egg, baunir og stundum beikon. „Með því drekk ég líka vel af köldu vatni og les blöðin. Að því sögðu er pressukannan uppáhaldseldhústækið mitt,“ svarar Eyþór og deilir hér með okkur aðferðinni við morgunverðinn sem heldur honum gangandi.

Morgunverður Eyþórs

2-3 egg
¼ tsk. túrmerik
¼ tsk. chili-krydd
1/3 dós rauðar nýrnabaunir
100 g kotasæla
1 sneið beikon

Steikið eggin á pönnu upp úr smjöri. Kryddið með túrmerik og chili-kryddi.
Skolið baunirnar og setjið á disk ásamt kotasælu.
Steikið væna sneið af beikoni og setjið með.
Gott og hollt og gefur orku út í daginn. 

Eyþór er mikill matmaður og hefur gaman að því að …
Eyþór er mikill matmaður og hefur gaman að því að elda fyrir fólkið sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert