Hvernig er best að borða páskaegg?

Hér gefur að líta þau Ásdísi Ásgeirsdóttur og Frey Bjarnason …
Hér gefur að líta þau Ásdísi Ásgeirsdóttur og Frey Bjarnason en þau voru meðal álitsgjafa Matarvefjarins í fyrra. Þeim þykir nokkuð gott að borða páskaegg en voru nokkuð lengi að jafna sig eftir álitsgjöfina enda var fyrirkomulaginu breytt í ár. Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru um hvernig best er að borða páskaegg – eða hvernig réttast sé að borða það. Matarvefurinn gerði mjög svo óformlega könnun og komst að því að það kennir ýmissa grasa þegar rýnt er í hvernig landinn étur eggin sín.

Bitið í eggið: Eitt það al-galnasta sem við heyrðum var eiginmaður nokkur sem bítur alltaf beint í eggið. Ekki vill betur til en svo að afkvæmi hans hafa einnig tekið upp á þessu en þetta þykir afar óhefðbundin aðferð við að snæða páskaegg. Engum sögum fór af því hvort aðferðin einskorðaðist við ákveðnar stæðir af eggjum og hvort reynt hafi verið við risa-egg með þessum hætti.

Eggið sett í skál: Flestir áttu það sameiginlegt að setja eggið í skál þar sem það fékk að lúra alla páskana meðan það var étið.

Innihaldið fyrst – eggið svo: Nokkuð algengt var að innihaldið væri tæmt úr egginu í gegnum gatið góða og borðað fyrst. Þeir sem þetta iðka líkja því við helgispjöll að gæða sér á egginu sjálfu fyrr en innvolsið hefur verið klárað og málshátturinn lesinn upphátt.

Skorið í tvennt: Til eru þeir sem neita að sætta sig við að eggin eru ekki lengur límd saman eins og í gamla daga og því leggja þeir mikið á sig til að endurlifa gamlar minningar. Einn hitaði hníf og skar eggið þannig og er ekki annað hægt en að dást að eljunni. Þetta þykir þó ákaflega undarlegur háttur og ekki til eftirbreytni.

Eggið látið detta: Þó nokkrir viðmælendur voru á því að hápunktur páskanna væri „páskafallið“ þegar eggið er látið detta í gólfið þar sem það mölbrotnar. Nauðsynlegt er þó að eggið sé enn í pokanum – eiginlega algjört lykilatriði og betra er að láta eggið detta á flísar. Teppi virkar illa en hér er reglan að þú mátt bara láta eggið detta einu sinni.

Tappinn tekinn úr: Þetta er líklegasta algengast upphafið á átinu. Þá er tappinn góði (eða hræðilegi) sem settur var í eftir að sælgætisfyrirtækin hættu að setja eggin saman eftir kúnstarinnar reglum tekinn úr og eggið brotið út frá því – í skál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert