Gamla góða Baby Ruth-tertan með smá tvisti

mbl.is/Maria Gomez

Gamla góða Baby Ruth-tertan á sér öruggan stað í hjörtum þjóðarinnar enda hefur þessi dásemdarhnallþóra fylgt okkur nokkuð lengi. Hér gefur að líta sérlega áhugaverða útgáfu af kökunni og ekki spillir fyrir að þetta er svo fagurlega gert hjá Mariu Gomez á Paz.is að það vottar fyrir hjartaflökti af hrifningu. 

Gamla góða Baby Ruth-tertan með smá tvisti

Í botnana þarf:

  • 6 eggjahvítur
  • 2 tsk. vanilludropa
  • 6 dl sykur
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 140 gr. Ritz-kex
  • 5 dl eða 200 gr. salthnetur

Aðferð

  1. Setjið eggjahvítur, lyftiduft, vanilludropa og sykur saman í skál og þeytið í hrærivél eða með handþeytara vel og lengi. Alveg þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að gumsið leki úr og hvíturnar eru alveg stífþeyttar.
  2. Setjið Ritz-kexið í poka og lemjið á það með kökukefli eða hendinni og myljið. Passið að mylja ekki í duft heldur bara grófar mylsnur og bita.
  3. Blandið svo salthnetunum út í pokann með kexinu og hristið vel saman.
  4. Hellið kexinu og hnetunum út í skálina með eggjahvítunum og hrærið mjög varlega saman við. Best er að gera það með gaffli og nota mjög hægar hreyfingar, bara blanda létt saman. Ekki hræra og hræra þá fellur loftið í eggjahvítunum.
  5. Setjið næst smjörpappír á 2 ofnskúffur eða grindur og teiknið hring á pappírinn.
  6. Setjið svo marengsinn hvorn á sína skúffuna inn í hringinn og bakið á 170-180 C°blæstri í 25 mínútur. Hægt að setja báða inn í einu.
  7. Takið marengsinn út og leyfið honum að standa á borði yfir nótt eða dag. Eða… slökkvið á ofninum og leyfið honum að vera þar inni yfir heila nótt eða dag.

Uppskrift að kremi

Kremið á kökuna er það sem setur punktinn yfir i-ið. Það er dásamlega gott og gefur kökunni dýpt og gott súkkulaðibragð. Gott er að gera kremið þegar setja á kökuna saman, því það stífnar. Passið ykkur því að gera það bara á sama tíma og þið þeytið rjómann og ætlið að setja hann á.

Í kremið þarf

  • 3 eggjarauður
  • 60 gr. flórsykur
  • 50 gr. smjörlíki
  • 100 gr. dökkt súkkulaði

Aðferð

  1. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til það er orðið loftkennt og „fluffy“.
  2. Bræðið næst smjörlíki og súkkulaði saman í potti við vægan hita. Hrærið stöðugt í svo það brenni ekki.
  3. Hellið svo súkkulaðiblöndunni hægt út í eggjarauðublönduna meðan það þeytist varlega saman.

Samsetning

  1. Látið neðri marengsinn snúa á hvolf eða sárið upp. Þeytið saman 500 ml-750 ml af rjóma. Setjið svo súkkulaðihúðaðar rúsínur út í rjómann. Magn eftir smekk, ekki samt setja of mikið.
  2. Setjið rjómann á milli og næsta marengsbotn ofan á með sárið niður í átt að rjómanum.
  3. Kremið er svo sett ofan á kökuna. Mér finnst best að setja mest á miðjuna og leyfa því svo að leka að hliðunum, svo það fari ekki allt á borðið. Gott að setja bara örþunnt lag á kantana.
  4. Ef þið viljið er fallegt að setja smá rúsínur og hnetur ofan á kremið, eða jafnvel fersk jarðarber og bláber.
  5. Ef þið kjósið að hafa ber, passið þá að setja þau á rétt áður en kakan er borin fram.
mbl.is/Maria Gomez
mbl.is/Maria Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert