Fiskisúpan sem engan svíkur

mbl.is/Berglind Hreiðars

Fátt er betra en góð fiskisúpa og þessi hér er það góð að fullorðnir menn hafa grátið af gleði yfir bragðgæðum hennar. Hér hrúgast hráefnin inn sem æra bragðlaukana og útkoman er ein allsherjar gleðisymfónía sem á fáa sína líka. 

Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari snilld en hún er nýkomin úr miklu ferðalagi um matarlendur Thaílands þar sem hún fór hamförum.

Fiskisúpa uppskrift

Fyrir 4-6 manns

  • 1 stk laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 3 gulrætur
  • 1 rauð paprika
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 flaska Heinz Chili sósa
  • 100 g tómatpúrra
  • 500 ml vatn
  • 500 ml rjómi frá Gott í matinn
  • 400 g þorskur
  • 200 g lax
  • 350 g rækjur
  • Karrý, cayenne pipar, salt, pipar, fiskikrydd og fiskikraftur
  • Ólífuolía til steikningar

Aðferð:

  1. Saxið niður lauk og hvítlauk og steikið upp úr vel af olíu og karrý þar til fer að mýkjast.
  2. Skerið gulrætur og papriku í strimla og bætið út í pottinn, kryddið með salti og pipar.
  3. Þegar grænmetið er tekið að mýkjast er kókosmjólk, chili sósu, tómatpúrru, vatni og rjóma hellt saman við, blandað vel og leyft að malla á meðan fiskurinn er skorinn niður.
  4. Hér er gott að krydda súpuna til með ceyenne pipar, fiskikryddi og krafti.
  5. Þorskur og lax er skorinn í teninga og rækjurnar skolaðar. Hægt er að hafa aðeins hefðbundnar rækjur en einnig er gott að blanda með smá af risarækju.
  6. Þegar súpan hefur fengið að malla í 20-30 mínútur er hún hituð að suðu og fiskurinn (og risarækjurnar ef þið notið slíkar) settur saman við í 5-7 mínútur (eftir stærð bitanna) og að lokum er minni rækjunum bætt saman við og suðunni leyft að koma upp að nýju og þá er súpan klár!
  7. Gott er að bera súpuna fram með góðu brauði en einnig er hún dásamleg ein og sér.
mbl.is/Berglind Hreiðars
mbl.is/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert