Einkakokkur Ed Sheeran hélt matarboð hér á landi

Zara Larson var meðal gesta í matarboðinu.
Zara Larson var meðal gesta í matarboðinu. Kristinn Magnússon

Einkakokkur Ed Sheeran, Josh Harte, hélt matarboð í samvinnu við Matís og íslenska matvælafrumkvöðla sl. mánudag. Zara Larsson lét sjá sig en Sheeran sjálfur var farinn af landi brott.

„Josh notar tækifærið á meðan hann er að ferðast með Ed og hittir matarfrumkvöðla hér og þar um heiminn og skrifar blogg um það fyrir samtök sem heita EIT,“ segir Þórgnýr Thoroddsen, yfirbruggari brugghússins Álfs, sem var á svæðinu. EIT eru samtök sem vinna að því að gera matvælaiðnaðinn sjálfbærari.

Matreiðsluhetjur heimsins

„Matís er hluti af EIT svo að Josh fær tengsl við matarfrumkvöðla í gegnum þau. Það vildi einmitt svo til að við hittum þau hjá Matís á Hólum í Hjaltadal á bjórhátíðinni þar 1. júní. Þau voru mjög spennt yfir bjórnum okkar svo þau settu sig í samband við okkur og buðu okkur að koma ásamt öðrum að hitta Josh og kynna það sem við vorum að gera.“

Ásamt Þórgný voru á svæðinu aðilar frá Himbrima sem framleiðir íslenskt gin, Íslenskri hollustu, Nordic Wasabi og Fjárhúsinu.

„Josh skrifar blogg um matreiðsluhetjur heimsins. Við spjölluðum heillengi, hann var brjálæðislega spenntur fyrir allri þessari nýsköpun. Hann er mjög hrifinn af sjálfbærnispælingum í mat og sjálfbærni var mikið rædd enda voru þarna samankomin fyrirtæki sem eru öll á einn eða annan hátt að vinna í sjálfbærni. Það var jafnvel svolítill hiti í fólki um þá ábyrgð sem hvílir á fyrirtækjum um að taka frumkvæði að því að sýna vistvæni í verki.“

Við framleiðslu bjórs Álfs er kartöfluhýði sem áður fór til spillis hjá Þykkvabæ nýtt til bruggunar. Þórgnýr segir mikilvægt að búa til verðmæti þar sem þau eru ekki fyrir og að hráefni sé fullnýtt.

Þó svo að Sheeran hafi ekki verið á svæðinu fékk hann forsmekk af matarboðinu í gjöf þar sem til dæmis var að finna bjór frá Álfi. „Ed rekur bar þarna í Englandi þannig að maður veit ekki hvað gerist,“ segir Þórgnýr.

Ed Sheeran mætti ekki enda farinn af landi brott þegar …
Ed Sheeran mætti ekki enda farinn af landi brott þegar matarboðið var haldið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert