Bjóða upp á umbúðalausan Bændamarkað næstu helgar

mbl.is/

Bændamarkaðurinn í Krónunni er nýtt samstarf Krónunnar og Sölufélags garðyrkjubænda þar sem hægt verður að fá nýtt íslenskt grænmeti í verslunum Krónunnar næstu helgar. Ákveðið var að prófa að lágmarka umbúðir eins og hægt var og kemur því stærsti hluti grænmetisins án umbúða til neytenda.

„Við erum alltaf að reyna að lágmarka umbúðir eins og við getum og okkur langaði að bjóða viðskiptavinum okkar upp á nýju íslensku grænmetisuppskeruna ópakkaða. Okkur fannst mikilvægt að vinna náið með Sölufélagi garðyrkjubænda fyrir haustuppskeruna og vinna saman í því að tryggja gæði vörunnar án þess að pakka henni í plast. Við erum því að fylgjast vel með hvernig gengur á Bændamarkaðnum og ætlum að halda áfram í samstarfi við Sölufélagið og vinna saman í að lágmarka umbúðir þar sem mögulegt er hverju sinni,” segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar í samtali við Matarvef mbl.is.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Eggert Jóhannesson

Aðspurð hverjar séu helstu áskoranirnar við það að selja grænmeti í lausu segir Gréta að það sé að tryggja gæði vörunnar og rekjanleikann til bónda. „Það skiptir okkur miklu máli að lágmarka matarsóun eins og hægt er svo það er mikilvægt að við fylgjumst vel með gæðunum og hvernig það gengur að selja í lausu. Markmið okkar er að henda aldrei mat og því má umbúðaleysi ekki verða til þess að maturinn skemmist. Það er einnig mjög mikilvægt að tryggja rekjanleikann við bónda sem Sölufélagið hefur getað tryggt og við viljum geta komið þeim skilaboðum áfram til okkar viðskiptavina,” segir Gréta.

Hún segir að það sé auðveldara að tryggja rekjanleika þegar boðið er upp á vöru sem kemur aðeins frá einum birgja eins og í Bændamarkaðnum. „Þá er auðvelt fyrir okkur að koma á framfæri hvaðan varan kemur. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða í framtíðarlausnum þegar við bjóðum upp á fjölbreytt vöruúrval í til dæmis tómötum.”

Gréta segir Bændamarkaðinn í takt við það sem viðskiptavinir Krónunnar hafi kallað eftir. „Viðskiptavinir okkar hafa tekið Bændamarkaðnum mjög vel sem er mjög ánægjulegt. Viðskiptavinir okkar hafa verið duglegir að koma með ábendingar til okkar um hvað við getum gert betur og við vitum að þeir vilja íslensku uppskeruna í lausu og ópakkaða.”

Hún bætir við að með þessu sé hægt að fylgjast með hvað grænmetið þoli umbúðalaust og er ætlunin að skoða í kjölfarið hvað sé hægt að bjóða upp á umbúðalaust til frambúðar. „Við finnum að hvert skref telur í þessum málum.”

Bændamarkaðurinn verður í verslunum Krónunnar næstu 3-4 helgar, eftir uppskeru, og ný sending kemur alla föstudaga á meðan markaðurinn stendur yfir.

mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert