Beikonkjúklingur Berglindar sem bræðir hjörtu

mbl.is/Berglind Guðmundsdóttir

Ok - þetta var óformleg atlaga að Íslandsmetinu í B-fyrirsögn - bókstaflega. En það breytir ekki þeirri staðreynd að uppskriftin er æðisleg enda úr smiðju Berglindar Guðmunds á GRGS.is.

Beikon og kjúklingur er blanda sem klikkar aldrei og ef betur er að gáð má sjá alls kyns gúmmelaði í uppskriftinni sem gleður hjartað og geðið.

Beikonkjúklingur í sinnepsrjómasósu

  • 4 kjúklingabringur, t.d. frá Rose Poultry
  • ½ dl dijonsinnep
  • 1 tsk. reykt paprikukrydd
  • salt og pipar

Sinnepsrjómasósa

  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 2 dl vatn
  • 1-2 tsk. kjúklingakraftur, t.d. frá Oscars
  • 2 msk. dijonsinnep
  • 250 ml matreiðslurjómi
  • 1-2 tsk. timían

Blandið dijonsinnepi, paprikukryddi, salti og pipar saman í skál. Setjið kjúklinginn í skál eða plastpoka og hellið marineringunni saman við. Marinerið eins lengi og tími gefst.

Steikið beikonbitana á pönnu þar til næstum stökkir. Takið beikonið af pönnunni en skiljið beikonfituna eftir.

Brúnið kjúklinginn á pönnunni í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Bætið vatni, kjúklingakrafti, sinnepi og beikoni út á pönnuna og hitið.

Bætið matreiðslurjóma og timían saman við og látið malla í 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sósan farin að þykkna. Berið fram með góðu salti og hrísgrjónum eða kínóa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert