Stærsta fitnessmót ársins

Ljósmynd/Mummi Lú

Það er Konráð Valur Gíslason sem stendur að mótinu en hann er almennt talinn sá þjálfari sem ber ábyrgð á árangri flestra íslenskra hreystikeppenda. Mótið var haldið í fyrsta sinn í fyrra og mætti fjöldi alþjóðlegra keppenda hingað til lands til að keppa. Sigurvegararnir vinna sér inn keppnisréttindi á atvinnumótum í greininni, svokallað Pro Card, sem er afar eftirsóknarvert.

Jafnframt verður Thor's Power Challenge þar sem keppt er í dauðalyftu með „ströppum“ og drumbalyftu. Þar er hinn eini sanni Hafþór Júlíusson í broddi fylkingar. Hnefaleikafélag Reykjavíkur verður með tíu bardaga hið minnsta með innlendum keppendum. Að sögn Konráðs verður einnig kynning á súlufimi og mikið af varningi verður kynnt á mótinu. „Þetta verða um fjörutíu básar og eitthvað um 300 keppendur, þar af er um helmingur erlendir keppendur.“ Mótið er mikil lyftistöng fyrir hreysti og vaxtarrækt hér á landi og fá íslensku keppendurnir mun meiri athygli enda að keppa á alþjóðlegu móti. „Þeir sem eru í þessu af alvöru og vilja komast á stóru atvinnumannamótin verða að vinna sér inn svokallað Pro Card. Það tryggir þátttökurétt á þeim mótum. Nú þegar hafa þrír íslenskir keppendur unnið sér inn atvinnumannsréttindi. Við eigum keppendur á heimsmælikvarða og það er búið að taka þetta yfir á næsta stig með því að fá alvörukeppni að utan hingað til lands.“

Snýst um hlutföllin

Í huga margra snýst hreysti um öfgar en iðkendur líta alla jafna mjög eðlilega út, fyrir utan að vera í afar góðu líkamlegu formi. Það sem gert er í aðdraganda móts er að fram fer svokallaður niðurskurður þar sem keppandi losar sig við fitu með það að markmiði að vöðvauppbyggingin sjáist sem best á keppnisdaginn. Það er gert með mjög skipulögðum hætti.

„Ef þú ert kominn með það mikinn vöðvamassa að það hentar á svið er hægt að keppa. Þá þarf að fara í niðurskurð til að vöðvaskilin sjáist. Þetta snýst allt um rétt hlutföll milli vöðvahópa og hversu vel þau sjást. Keppandi þarf jafnframt að kunna að koma fram og sýna líkamann á sem bestan hátt á sviðinu með því að „pósa“ rétt. Það er svo misjafnt eftir flokkum hversu mikinn vöðvamassa þú þarft og hversu mikinn skurð,“ segir Konráð.

Bæði er hugað að mataræði auk þess sem bætt er við brennsluæfingum. Mataræðið skiptir gríðarlega miklu máli og gæði fæðisins. Síðan á keppnisdaginn sjálfan er öllu tjaldað til; brúnkuspreyi, pallíettubikiníi, hárlengingum og háum hælum. Allt í þeim tilgangi að vöðvaskurðurinn sjáist sem best. Eftir mót er síðan horfið aftur til eðlilegri hátta og keppandi fer í hærri fituprósentu og heldur áfram sinni hefðbundnu líkamsrækt.

Mataræðið skiptir öllu

„Í niðurskurðinum er lykilatriði að borða eins hreint fæði og kostur er. Þú losar þig við allan sykur og mikla fitu. Markmiðið er að borða beint frá náttúrunni ef kostur er og engin aukaefni og enga unna matvöru. Það er mikill fiskur, kjúklingabringur og magurt rautt kjöt, brún hrísgrjón, sætar kartöflur og mikið grænmeti. Eins er mikilvægt að drekka mikið vatn.“ Yfirleitt sé æfingum fjölgað umtalsvert þegar undirbúningur hefst fyrir mót en það fari alveg eftir fituprósentu hvers og eins hversu miklu er bætt við.

Konráð Valur Gíslason.
Konráð Valur Gíslason. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert