Alþjóðlegi kampavínsdagurinn er í dag

mbl.is/Moet-Twitter

Alþjóðlegi kampavínsdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, 18. október. Þessi ljúffengi drykkur hefur notið mikilla vinsælda meðal landsmanna síðustu ár en sala á kampavíni hér á landi jókst um nærri 25% á síðasta ári. Kampavín á rætur sínar að rekja til franska héraðsins Champagne, sem er austan við París en þaðan koma þessi virtu og fáguðu vín. Þrátt fyrir að eiga það til að vera aðallega á boðstólnum við sérstök tilefni eins og brúðkaup, útskriftir og áramót, henta kampavín mjög vel með margs konar mat og við ýmis tilefni. Coco Chanel sagði til dæmis að hún drykki kampavín aðeins við tvö tækifæri. Þegar hún væri ástfangin og þegar hún væri það ekki.

Veitingahúsið Kröst í Hlemmi mathöll mun halda upp á daginn með pompi og prakt enda er staðurinn þekktur fyrir gott úrval af kampavíni. Kampavínsdagskrá Kröst hófst í gær og lýkur henni næstkomandi sunnudag. Boðið verður upp á átta mismunandi gerðir af kampavíni en einnig verður hægt að fá sérstaka kampavínsferð sem inniheldur bæði vínsmökkun og smárétti sem passa sérstaklega vel með vínunum.

Frakkinn Arthur Lawrence Sassi, yfirþjónn á Kröst, veit allt um kampavín og segir að sérstaða drykkjarins sé einna helst fólgin í því hvaðan hann kemur. Bendir hann á að það sé ekkert annað land eða einu sinni hérað í Frakklandi sem getur framleitt kampavín, hvað þá fengið að kalla vín sitt kampavín því þau þurfa öll að vera frá hinu fræga Champagne-héraði. Við spurðum Arthur spjörunum úr varðandi vínin vinsælu.

Hvernig fólk drekkur kampavín og hvenær drekkur það einna helst kampavín?

„Alls konar fólk drekkur kampavín og þá einna helst til þess að fagna hinum ýmsu viðburðum, brúðkaupum, fríum, útskriftum, sigrum í keppnum, við undirritun samninga og fleira. Það er samt alltaf ástæða til þess að drekka kampavín og ég segi það ekki bara af því að ég er franskur. Það er alltaf flott að vera með kampavínsflösku við borðið því öll þekkingin og hönnunin á bak við flöskuna segir svo margt um þig. Smellurinn sem heyrist þegar flaskan er opnuð er næstum því jafn spennandi og vínið sjálft.”

Arthur segir að hægt sé að drekka kampavín með flestum mat, yfirleitt með forrétti eða aðalrétti. Hann segir að vínið passi einnig vel við ólífur, brauð og þurrt kjöt.

Það má líka segja að kampavín sé visst stöðutákn og er vinsælt að láta glitta í eina græna Dom Pérignon á myndum á samfélagsmiðlum. Að sjálfsögðu er flaskan svo drukkin enda þarf ekki endilega að drekka hana með mat og þá skiptir félagsskapurinn oft höfuðmáli.“

Hvernig drekka Íslendingar kampavín í samanburði við aðrar þjóðir?

„Ég held að Íslendingar skilji vel orðspor og ímynd kampavíns. Við fáum margt fólk á Kröst sem vill fá að vita meira um kampavínin okkar og sögurnar á bak við vínin. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að drekka kampavín án þess að vita neitt um það en það er miklu meira á bak við vínið en hinn guðdómlegi keimur og svalandi loftbólur.“

Hvernig ætlar Kröst að halda upp á alþjóðlega kampavínsdaginn?

„Kröst vill gefa fólki tækifæri til að uppgötva kampavín í lifandi umhverfi í Hlemmi mathöll. Við verðum með undraverð kampavín í boði sem fólk getur fengið að smakka. Við verðum líka með amuse bouche sem eru litlir franskir forréttir til þess að para með víninu.”

Hvað er mikilvægt að vita um kampavín?

„Það sem er mikilvægast að vita um kampavín er að það varð ekki þekkt sem fáguð vara um allan heim út af efnahagslegu virði heldur vegna allrar vinnunnar, orkunnar og snilligáfunnar sem framleiðendur vínsins hafa lagt í drykkinn síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið.”

Kampavínsdagar Kröst standa til og með sunnudeginum 20. október og verða sum kampavín aðeins í boði í takmörkuðu magni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert